149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:08]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég ætla ekki að tala um póst heldur um rekstur á opinberu hlutafélagi sem komið er í þrot í rekstri sínum, og það flestum að óvörum. Tilgangurinn með innleiðingu laga um opinber hlutafélög árið 2006 var að bæta aðgengi almennings og annarra að upplýsingum um hlutafélög sem hið opinbera á að fullu. Þeirri breytingu fylgdi m.a. að stjórnsýslulög, lög um upplýsingaskyldu og lög um réttindi opinberra starfsmanna hættu að gilda um viðkomandi stofnun félaga.

Þeir sem fögnuðu þeirri breytingu sögðu hana auka sveigjanleika í rekstri viðkomandi stofnana. Þeir sem voru á móti sögðu hins vegar að annars vegar gæti þessi breyting bitnað á réttindum starfsmanna og hins vegar minnkað gegnsæi í rekstri.

Nú stöndum við frammi fyrir því að ræða stöðu Íslandspósts sem hefur vissulega notið sveigjanleika í rekstri og þá fyrst og fremst með miklum fjárfestingum, misvel heppnuðum, í ýmiss konar samkeppnisrekstri. Ég held að við getum öll verið sammála um að sveigjanleikinn er ekki mikill.

Þá komum við að því hver ber ábyrgðina á því. Það er eitt félag, eitt ráðuneyti, einn aðili sem fer með þetta eina atkvæði fyrir hönd almennings í þessu opinbera félagi. Það er fjármálaráðuneytið. Stjórn Íslandspósts er pólitískt skipuð og hefur verið það frá upphafi. Þar hefur m.a. setið aðstoðarmaður fjármálaráðherra, þess sem fer með þetta atkvæði. Það virðist ekki hafa skilað sínu í gagnsæinu.

Það er ekki nema von að maður spyrji: Höfum við gengið götuna til góðs? Ég ætla ekki að varpa allri ábyrgðinni yfir á fjármálaráðherra þó að hún sé töluverð í þessu tilfelli, heldur langar mig að benda á annað sem tekið var sérstaklega fyrir og tilgreint við þessa breytingu. Þegar um er að ræða opinber hlutafélög mega fulltrúar eigenda mæta á aðalfundi og bera fram skriflegar tillögur, í þessu tilfelli alþingismenn. Ég held að það sé nokkuð ljóst við þessa umræðu að ef við ætlum að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig, að opinber hlutafélög sem fjármálaráðherra er gæslumaður að og við berum ábyrgð á séu rekin á þennan hátt í myrkrinu þar til eina úrræðið verður svo skyndilausn að sækja fé í vasa almennings, til skattgreiðenda, að við sem gæslumenn hér þurfum einfaldlega að standa okkur betur.