149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, málshefjanda, fyrir þessa umræðu um Íslandspóst, um stöðuna og horfur í póstdreifingu. Ég vil þakka hæstv. ráðherra jafnframt fyrir hans innlegg. Íslandspóstur hefur verið mikið í umræðunni og á vettvangi þingsins í tengslum við fjárlagaumræðuna og veitingu lánsheimilda. Það er mikilvægt að taka þetta sjónarhorn sem hv. málshefjandi leggur hér til umræðunnar, að svara til framtíðar litið hver áhrifin af frumvarpinu, sem er til umræðu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd um afnám einkaréttar, verða á reksturinn og hvernig eigi að standa straum af kostnaði við alþjónustu. Ef frumvarpið verður að lögum verður það 2020.

Íslandspóstur sinnir lögboðinni alþjónustuskyldu íslenska ríkisins á sviði póstþjónustu. Skyldur félagsins felast m.a. í því að tryggja öllum landsmönnum á jafnræðisgrundvelli aðgang að alþjónustu sem uppfyllir ákveðnar gæðakröfur á viðráðanlegu verði. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar við skoðum reksturinn. Þá fékk hv. fjárlaganefnd svar frá stjórn Íslandspósts um fyrirhugaðar aðgerðir og þar kemur glöggt fram að tekjur af einkarétti hafa í minnkandi mæli staðið undir alþjónustu. Það má glöggt sjá af gögnum. Fyrirtækið hefur reynt að búa til og byggja upp til framtíðar dreifikerfi til þess að sinna alþjónustunni.

Stjórn og stjórnendur Íslandspósts vinna nú að gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019 og þar er farið yfir tekjuöflunarmöguleika og einstaka rekstrarliði í því skyni að treysta tekjugrunn félagsins og draga úr kostnaði, þ.e. farið í almennar hagræðingar- og aðhaldsaðgerðir. Ég get tekið undir með hv. málshefjanda að þær hefðu mátt hefjast fyrr. En ég minni síðan á að lánsheimildin umrædda er skilyrt því að ráðherrar upplýsi um framvindu þessarar rekstrarhagræðingar. Þá fáum við nánari greiningu á því áður en veitt er lán.