149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:13]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er mjög þörf umræða sem er hér í dag um þetta opinbera hlutafélag okkar, Íslandspóst. Mig langar í seinni ræðu minni aðeins að fjalla um samkeppnisreksturinn, samkeppnisþátt þessa fyrirtækis. Árum saman, a.m.k. síðasta áratug og jafnvel síðustu tvo áratugi, hefur verið kvartað mjög undan rekstri Íslandspósts á dótturfélögum sínum sem eru í samkeppnisrekstri. Á dögunum kom í ljós að tekin hafði verið ákvörðun um það hjá stjórnendum Íslandspósts að sameina Íslandspóst dótturfélagi sínu ePósti, sem er einmitt póstfyrirtæki í bullandi samkeppni. Þar að auki hafði Íslandspóstur lánað ePósti, þ.e. þessu fyrirtæki í samkeppnisrekstri, fjármuni út úr sínu fyrirtæki, Íslandspósti, sem nær svo í peninga hjá okkur hinum vegna erfiðrar rekstrarstöðu. Lánið til dótturfélagsins reyndist ekki bera vexti eins og eðlilegt þykir. Þá veltir maður fyrir sér: Á hvaða stað erum við þarna í samkeppnisrekstrinum? Formaður Félags atvinnurekenda talaði um að með þessu væri Íslandspóstur klárlega að brjóta sátt sem gerð var við Samkeppniseftirlitið fyrir nokkru síðan, einmitt vegna reksturs opinbera hlutafélagsins á dótturfélögum sínum.

Ég hef miklar áhyggjur af því, frú forseti, að ríkið hafi nú tekið ákvörðun um þessa 1.500 millj. kr. innspýtingu vegna þess að ég óttast að Eftirlitsstofnun EFTA muni koma og hreinlega flengja okkur fyrir þessa framkvæmd. (Forseti hringir.) Íslandspóstur hefur árum saman verið í bullandi samkeppnisrekstri (Forseti hringir.) og slík fjárveiting er með öllu óheimil.