149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:18]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Þar sem tími jólakortanna er runninn upp má segja að þessi umræða sé vel við hæfi. Íslandspóstur er í vanda en sá vandi skýrist að miklu leyti af minnkandi póstmagni og miklum kostnaði við að dreifa sendingum sem koma frá Kína. Kostnaðurinn við þá flutninga er mikill en tekjurnar litlar. Íslandspóstur er í eigu ríkisins og hefur ákveðnar skyldur. Til að uppfylla skyldur virðist einungis tvennt vera í stöðunni, að hækka greiðslur til Íslandspósts eða skerða þjónustuna. Skerðing á þjónustu mun hafa meiri áhrif á landsbyggðina og hinar dreifðari byggðir en þéttbýlissvæðin. Mig langar til að velta því upp hvernig við sjáum þessa hluti fyrir okkur. Eru til einhverjar lausnir sem við gætum nýtt til að koma til móts við Íslandspóst? Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað mikið myndi sparast á því að færa póstkassa að lóðamörkum eins og Danir gerðu eða taka með lögum böggla út úr alþjónustuskyldu eins og Finnar gerðu. Það breytir því ekki að umræðuna verðum við að taka. Við verðum að komast að skynsamlegri niðurstöðu sem okkur hugnast. Er það t.d. lausn að bera út sjaldnar en bjóða upp á að fólk geti sótt böggla eða bréf í pósthús? Það er spurning.

Í mörgum tilfellum eru tilkynningar um póstsendingar sendar rafrænt og í mörgum tilfellum gæti verið mögulegt að koma slíku við. Stjórnvöld verða að hafa stefnu fyrir Ísland allt í þessum málum. Íbúar á ystu nesjum, á afskekktustu stöðum okkar fallega lands, ættu að fá sömu þjónustu og þeir sem búa á þéttbýlissvæðinu. Þetta flokkast sem grunnþjónusta í landinu og okkur stjórnmálamönnunum ber skylda til að veita Íslendingum þá þjónustu.