149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er mikilvægt að sýna ábyrgð í þessu máli. Mér fannst reyndar ekki allir gera það eins og kom í ljós í atkvæðagreiðslum um heimild Íslandspósts til að draga á lán til ríkisins í umræðunni um fjárlögin. Hugmynd málshefjanda um flutningsjöfnunarkerfi í póstþjónustu er áhugaverð og ég tel að hana þyrfti að skoða rækilega.

Póstþjónusta er einn af grundvallarþáttum samfélagsins og það er mjög mikilvægt að hún sé skilvirk um land allt. Það er áhugavert að segja frá því að Póstmannafélagið verður 100 ára á næsta ári og það er ágætisgrein í Morgunblaðinu í dag eftir formann þess.

Alþjónustan er á ábyrgð ríkisins og við höfum falið Íslandspósti að framkvæma skylduna. Þetta vandamál, hversu hratt bréfpóstur hefur dregist saman, er ekki séríslenskt fyrirbæri. Sambærileg vandamál hafa verið á Norðurlöndunum og af þeim eigum við að reyna að læra hvað hefur virkað og hvað hefur ekki virkað til að tryggja alþjónustu.

Ég bendi á að fyrir hinar dreifðu byggðir þar sem langt er í þjónustuaðila er reglubundin póstþjónusta lykilatriði. Hér hugsa ég t.d. um trillusjómanninn eða bóndann sem þarfnast varahluta í bilaðan mótor og mikið liggur við. Því geld ég varhuga við því að draga frekar úr þjónustu hvað þetta varðar. Íslandspóstur er fyrirtæki í eigu okkar allra og því verður að verja verðmætin sem felast í því fyrirtæki, ekki bara leyfa því að fara á höfuðið eins og virtist að sumir þingmenn væru að fara með við afgreiðslu fjárlaga.

Ísland er stórt og Íslendingar fáir í hinu stóra samhengi. Mannfjöldi á ferkílómetra er hér margfalt minni en í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hugsanlega gæti farið svo að einhverjir einkaaðilar sæju sér hag í því að fara í samkeppni við Íslandspóst á höfuðborgarsvæðinu með 50 g bréfin en ég sé ekki fyrir mér að það yrði mikið utan þess. Þetta verður að skoða vandlega og fjárlaganefnd, eins og kemur fram í nefndaráliti um fjárlögin, hyggst fylgjast vandlega með og hefur farið fram á áður en lánið verður nýtt að hún verði upplýst um framgang fjárhagslegrar endurskipulagningar og útfærslu á framtíðarrekstrarfyrirkomulagi. Með því sýnum við ábyrgð gagnvart þessu mikilvæga fyrirtæki, Íslandspósti.