149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:23]
Horfa

Snæbjörn Brynjarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er reyndar ekki svo brjálæðislega mikil þjónusta við okkur á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að pósthúsið hérna í 101 mun loka brátt, þannig að fleiri geta kvartað undan því, en við getum svo sem hjólað og sótt okkur póstinn einhvers staðar annars staðar. (Gripið fram í.)

Mig langar svolítið að velta fyrir mér stjórnum sem stjórnmálamenn skipa eða eru skipaðar af stjórnmálamönnum. Oft fara þær út í óskynsamlegar fjárfestingar og mér dettur í hug að hér sé dæmi um slíkt. Þetta er kannski ekki eins gróft og þegar OR fór á sínum tíma út í einhvers konar rækju- eða humarrækt eða skelfiskrækt eða hvað það nú var.

Engu að síður spyr maður: Hvað er í gangi þegar verið er að veita dótturfyrirtækjum lán án vaxta? Stenst það lög? Svo má líka spyrja: Af hverju er stöðugildum fjölgað um 90 á sama tíma og samdráttur er í póstþjónustu? Það er eitthvað sem maður getur spurt sig að. Það geta vel verið einhverjir pólitískir hagsmunir þar í húfi.

Ég ber samt auðvitað mikla virðingu fyrir þessari grunnþjónustu. Það er mikilvægt að við hlúum að henni og pössum upp á hana. Við verðum samt að spyrja okkur: Hvar ætlum við að setja mörkin? Hvar ætlum við að segja að hér verði samkeppnislögmálin að gilda? Við þurfum líka að velta fyrir okkur hvar peningunum sé best varið. Fyrir mitt leyti væri ég til í að sjá pósthús alls staðar, mér finnst þetta fallegar og skemmtilegar byggingar, sérstaklega þegar þau eru í gömlum húsum. Við ættum endilega að passa upp á þær byggingar.

Við sem neytendur ættum kannski líka að spyrja: Ef við erum að fara að fjármagna lán eins og við höfum gert núna, 1,5 milljarða, erum við að fá ódýrari þjónustu fyrir vikið? Erum við að fá þjónustu sem er nær okkur? Í mínu tilviki verð ég að segja: Nei, skattpeningar mínir fara ekki í að fjármagna þjónustu sem er nær mér og ódýrari í augnablikinu.