149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu verðum við að vernda póstþjónustuna okkar, það er ekki spurning. Það er alltaf verið að tala um einhverjar bréfasendingar frá Kína en við fáum mjög fá bréf frá Kína. Hins vegar fáum marga pakka þaðan. En jú, við stefnum öll að því að draga úr bréfanotkun. Það er yfirlýst stefna okkar að reyna að koma því flestu á rafrænt form.

Það breytir ekki þeirri staðreynd að sú staða sem upp er komin hjá Íslandspósti í dag er ekki ný, hún var fyrirséð. Það dapra í stöðunni er að því skuli slengt fram hér og nú og að ekki hafi verið búið að gera það með meiri fyrirvara. Þannig að ég segi: Öllu eftirliti er afskaplega áfátt og líka eftirfylgni okkar með því hvernig hin raunverulega staða er hjá Íslandspósti og hvað við getum gert til hagræðingar. Við erum að setja 1.500 milljónir inn í þetta fyrirtæki sem er með 60% veltu á samkeppnismarkaði. Ég tek undir það með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur að það gæti verið að við værum að skapa okkur skaðabótaskyldu með því að stíga svona harkalega inn á samkeppnismarkað, þó svo að pósturinn sé opinbert hlutafélag að 40% leyti sem er svo með 60% á samkeppnismarkaði.

Mér finnst við eigum að vanda okkur pínulítið betur og ekki fara svona rosalega fljótt í þetta, sérstaklega í ljósi þess að forstjóri Íslandspósts hefur sagt að við værum í rauninni rétt aðeins að redda þessu fyrir horn. Horfum pínulítið lengra. Við sjáum a.m.k. ekki fram á að fá þessar 1.500 milljónir nokkurn tímann til baka. Látum þeim vera vel varið.