149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:29]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem hefur, eðli málsins samkvæmt, verið meira um núverandi rekstur og stöðu en endilega það sem hún átti að snúast um, þ.e. hvernig nýtt frumvarp geti hugsanlega tekist á við vanda póstsins. Ég vil líka leggja áherslu á hversu mikilvæga þjónustu Íslandspóstur veitir hringinn í kringum landið, það er mikilvæg grunnþjónusta fyrir alla.

Póst- og fjarskiptastofnun, sjálfstæð stofnun sem hefur eftirlit með þessu fyrirtæki, mat það svo að á árinu 2017 hafi verðlagning á bréfum innan einkaréttar vegið upp meintan taprekstur Íslandspósts af alþjónustunni. Það ár var nokkurn veginn í jafnvægi. En árið 2018 hefur greinilega farið mun verr af stað og staðan versnað núna undir lok ársins, m.a. vegna enn frekari fækkunar bréfa og Kínapakkanna.

Félagið hefur séð batamerki eftir að innheimta umsýslugjalds félagsins jókst og tollmeðferð á sendingum frá Kína var aukin.

Það er rétt að geta þess að í nýju frumvarpi er gert ráð fyrir að félagið geti innheimt gjald vegna erlendra pakkasendinga sem taki mið af kostnaði við þjónustuna að viðbættum hóflegum hagnaði. Þannig gera stjórnvöld ráð fyrir að ekki þurfi, ef hjá því verður komist, að niðurgreiða með ríkisframlagi erlenda póstverslun í samkeppni við innlenda verslun. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Varðandi síðustu setninguna, um flutningsjöfnun, þá leggjum við til í frumvarpinu að dreifingin sé með sama gjaldið alls staðar á Íslandi, það sé eitt póstdreifingarkerfi. Við sitjum öll við sama borð. Það breytir því ekki að það er heildsöludreifing á mismunandi svæðum, innan einhverra ákveðinna landsvæða og það er mögulegt að einhverjir aðrir sjái sér hag í því. Á það er einmitt verið að opna í þessu frumvarpi. Vonandi sjáum við hag fyrirtækisins batna. En ég ítreka mikilvægi þess að þessi grunnþjónusta sé í boði hringinn í kringum landið, alls staðar fyrir alla landsmenn. Hún er ákaflega mikilvæg.