149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[15:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, vissulega á eftir að setja reglugerð en hún mun alltaf rammast inn af þeim lögum sem eru sett um óvænt útgjöld og þess háttar. Hvernig sem reglugerðin yrði sett myndum við aldrei gefa leyfi umfram þær skilgreiningar sem er skýrt kveðið á um í lögunum.

Hvað festuna varðar má spyrja: Af hverju erum við að gefa afslátt af skilyrðunum þegar búið er að setja lögin?

Reglugerðin kemur væntanlega til með að skýra betur út vinnuferlið um það hvernig ákvörðunin er tekin, hvort þetta séu óvænt útgjöld eða þess háttar, en skilgreiningin um óvænt hreyfðist ekkert sem slík. Ég á erfitt með að sjá hverju reglugerð bætir við já- eða nei-spurninguna. Við getum skoðað í kjölfarið hvort farið var eftir reglugerðarferlum sem voru settir upp eða ekki.

Ég þakka líka hv. þingmanni fyrir að benda á að hlutfallið er 0,7% þegar búið er að draga frá alla milljarðana sem eru í ákveðnum leiðréttingum o.s.frv. Hv. þingmaður benti á að það verður að telja notkun varasjóðsins inn í þetta hlutfall sem vantar upp á 0,7%. Þá bætist við tæpt prósent sem er þá komið upp í meðaltal áranna 2009–2016.

Í sögulegu samhengi erum við að gera svipað og síðan 2009 þegar það byrjaði í raun og þá var einmitt enginn fjárauki sem dregur meðaltalið aðeins niður. Annars væri það kannski aðeins yfir því.

Við erum ekki búin, það eru enn fjárheimildir á varasjóðnum og miðað við lögin um opinber fjármál bendir allt til þess að við eigum að ganga á fjáraukalögin eftir að búið er að ganga á varasjóðinn. Ég vildi fá álit hv. þingmanns á því.