149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:15]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir framsögu 2. meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Ég ætla að skilja eftir spurningu en fyrst ætla ég í fyrra andsvari að koma að því sem ég hygg að hv. þingmaður hafi sagt í lok framsögu sinnar um ráðstöfun almenns varasjóðs og samgöngumál. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni um allt sem snýr að 24. gr. laga um opinber fjármál og ráðstöfun almenna varasjóðsins, að hann sé til að bregðast við tímabundnum, ófyrirsjáanlegum og óhjákvæmilegum útgjöldum. Ég ætla að vísa í framsögumann meiri hluta, hv. þm. Harald Benediktsson, sem fór með framsögu fyrir hönd meiri hlutans og fór ágætlega yfir að það vanti reglugerð samkvæmt 67. gr. laganna um opinber fjármál, þar sem ráðherra skal í reglugerð mæla fyrir um nánari framkvæmd þeirra laga, þar á meðal um varasjóðinn. Spurningin lýtur þá að því hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um að það knýi á um það í ljósi þess að við höfum þó í fjárlaganefnd gengið lengra varðandi ráðstöfun úr almenna varasjóðnum og kallað fyrir hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. samgönguráðherra og Vegagerðina og ítrekað kallað eftir áliti Ríkisendurskoðunar.