149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar og tek heils hugar undir þetta með honum. Hv. þm. Haraldur Benediktsson gerði grein fyrir þessu áðan. Ég hjó eftir því og ég þakka fyrir að komið var inn á það.

Við erum alveg sammála um þessa hluti og það er brýnt að við færum okkur jafnt og þétt að því hvernig þessi lög eiga að virka í raun. Þess vegna er mikilvægt að menn setji ekki þarna inn verkefni sem eiga augljóslega ekki heima þar. Ég get nefnt fjáraukann, það virðist vera háttur hjá framkvæmdarvaldinu að það sé hægt að finna ákveðin verkefni sem mönnum yfirsjáist með einhverjum hætti og þá er alltaf hægt að hugsa sem svo: Jú, ja, við reddum þessu í gegnum fjáraukann.

Ég nefni bara eitt dæmi sem ég kom ekki inn á í minni ræðu, svokallað Finnafjarðarverkefni sem um 20 millj. kr. fjárveiting er ætluð og kemur í gegnum fjáraukann. Ég spurðist sérstaklega fyrir um þetta í nefndinni þegar ráðuneytið var á fundi nefndarinnar. Þá kom beint fram að þetta væri nokkuð sem hafði bara verið sett þarna inn þannig að það er ákveðinn losarabragur á þessu að mínu mati sem við þurfum öll í nefndinni að standa svolítið fast á að eigi ekki við.