149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:20]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og vil ítreka að ég var ekki með nokkru móti að draga úr þeirri prýðisgagnrýni sem kom fram í framsögu hv. þingmanns og álitinu. Ég ætla þvert á móti að segja að þetta er okkar sameiginlega verkefni í fjárlaganefnd, að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og veita því aðhald. Núna þurfum við að bæta úr því sem upp á vantar með þeim verkfærum sem við höfum. Þess vegna vildi ég draga það hér fram að ég held að nefndin hafi gert vel í því að fara þó í gegnum þetta ferli.

Ég ætlaði í seinna andsvari að nefna þátt sem hefur komið þó nokkuð inn á borð hv. fjárlaganefndar sem hv. þingmaður minntist á í upphafi ræðu sinnar, umframgjöld vegna sjúkraþjálfunar. Þetta kom inn í fjárauka og hefur komið til kasta nefndarinnar áður. Það er mikil eftirspurnaraukning eftir þjónustu sjúkraþjálfara og tengist því að þakið á greiðsluþátttöku sjúklinga lækkaði og fleiri sjá möguleika á því að sækja þessa þjónustu. Mér fannst vanta mögulega upp á það í ræðu hv. þingmanns að nú eru samningarnir, þetta er bundið í samninga, að renna út um áramótin en vil þó draga fram að mjög jákvæðar fréttir eru að berast af þessu. Samkvæmt gögnum sem hafa birst er greinanlega að draga úr stoðkerfisvandamálum (Forseti hringir.) hjá þeim sem þess vegna fá 75% örorkumat.