149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisinnlegg. Ég get tekið undir margt af því sem hann sagði. Til að bæta við það sem hann sagði hér held ég að starfið í nefndinni sé ágætt. Nefndin hefur náð vel saman og ég held að það sé brýnt að við sammælumst um að draga jafnt og þétt úr heimildum í fjárauka. Ég held að það sé það sem við stefnum öll að og séu eðlileg og góð vinnubrögð. Engu að síður fannst mér sérstaklega koma fram þegar fjármálaráðuneytið kom á fund nefndarinnar að sá þankagangur, eins og maður segir, virðist vera innan ráðuneytisins að hægt sé að fara þá leið að leggja bara beiðnir fyrir fjárlaganefnd og hún eigi að samþykkja þær. Ef það eru einhver útgjöld sem menn sjá fyrir sér að þeir geti ekki komið fyrir með einhverjum hætti í fjárlög eða upp koma ný verkefni sem menn sjá o.s.frv. skynja ég þennan hugsunarhátt hjá framkvæmdarvaldinu að hægt sé að fara í fjáraukann. Það er kannski rangt hjá mér en ég skynja þetta þannig. Mér fannst þetta sérstaklega blasa við varðandi eitt verkefni sem ég nefndi áðan, Finnafjarðarverkefnið, en auðvitað eigum við nefndarmenn að sammælast um (Forseti hringir.) að gera bragarbót á þessu og draga úr því að fjárheimildir séu settar í fjárauka.