149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Örstutt: Mér flaug í hug, þegar hv. þingmaður nefndi viðbætur meiri hlutans, að í lögum um opinber fjármál er sérstaklega tekið til þess að ráðherra sé heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga. Þá velti ég fyrir mér hvort Alþingi sé það heimilt þegar allt kemur til alls. Við erum jú með fjárveitingavaldið og veitum framkvæmdarvaldinu þessar fjárheimildir en samkvæmt lögum um opinber fjármál eiga þær fjárheimildir að sveiflast í kringum 30. gr., eða þá í mínus og dragast frá fjárheimildum næsta árs o.s.frv. Ef upp koma þau þröngu tilvik sem talað er um þá á að vera hægt að laga þau. En það er skrýtið að Alþingi komi allt í einu inn og segi: Heyrðu, þetta er óvænt o.s.frv. Það ætti náttúrlega að vera ráðherra sem segir að um sé að ræða óvænt tilvik sem bregðast þurfi við með fjárheimildum. Það er mjög undarlegt ef Alþingi kemur á móti og segir: Æ, þetta var óvænt okkar megin þó að við vitum það ekki. Mér datt þetta svona í hug.

Svo vildi ég bæta við varðandi kirkjujarðasamkomulagi, þar sem hv. þingmaður taldi upp skilyrðin. Ég mundi vilja bæta við það: Hvað þá tímabundið? Það er alls ekki tímabundið.