149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:47]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur. Þessar viðbótarbreytingartillögur bar svo brátt að inn í nefndina að ég þekki ekki alveg hvernig þær eru komnar til. Ég vænti þess nú að þær séu komnar til vegna beiðni viðkomandi ráðherra til nefndarinnar. En auðvitað staldrar maður alltaf við, maður hefði viljað sjá ráðherra fyrir nefndinni með ítarlegan rökstuðning um af hverju þetta er óhjákvæmilegt, hvernig megi bæta hér úr. Því var ekki til að dreifa í þessu tilviki.

Þetta með kirkjujarðasamkomulagið er mjög góð ábending. Það er ekkert tímabundið. Hér er að vísu samningur í einhverjum ágreiningi en það er svo sem líka vert að hafa í huga að þar er m.a. með rökstuðningi verið að bæta þjóðkirkjunni upp launakostnað vegna aðhaldsaðgerða, sérstaklega frá hrunárum. Hin umsögnin sem náði að komast inn í þetta mál, kom frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði, þar sem bent var á að verið væri að mismuna söfnuðum, því að aðrir söfnuðir væru að starfrækja sína starfsemi með nákvæmlega sama hætti, greiddu prestum sínum í takt við ákvarðanir kjararáðs en fengju engar slíkar uppbætur eins og hér væri verið að úthluta þjóðkirkju.

En ég verð bara að segja að ég er ánægður með þær breytingartillögur sem hv. flutningsmaður 1. minni hluta er með fyrir þinginu og reikna með að ég styðji þær allnokkrar því að við þurfum að taka til í þessu.