149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:52]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að við deilum skoðunum í þeim efnum að vilja hafa þessa hluti í lagi. Það er vel til fundið hjá hv. þingmanni að minna á þessi atriði sem mörg hver voru ekki endilega til fyrirmyndar. Það er t.d. alveg hárrétt að haustið 2017 var komið fram enn eitt fjárlagafrumvarpið þar sem ekki var gert ráð fyrir fyrrnefndu kirkjujarðasamkomulagi. Það er þá sameiginleg skömm okkar í því efni. Það er í fyrsta lagi bagalegt að málinu sé ekki lokið, því að ágreiningur hefur staðið nokkuð lengi þó með viðurkenningu á því að semja þurfi um þetta og ljúka þessu en að lágmarki að taka þetta inn í fjárlagagerðina. Ég á ekki frekar en hv. þingmaður mjög langa sögu í pólitík og gæti sagt að ég væri í starfsnámi hér á köflum. Þess vegna get ég ekkert annað en tekið undir það.

Það er alveg rétt að í tíð þeirrar ríkisstjórnar voru framúrkeyrslur, t.d. á sviði sjúkratrygginga og lyfjakostnaðar, sem ekki var brugðist við með neinum öðrum hætti. Ég þekki það líka vel að þar voru framúrkeyrslur, sem ég taldi reyndar á þeim tíma algerlega óhjákvæmilegar, sem sneru að örorkubyrði og kostnaði við ellilífeyrisgreiðslur, sem voru í raun vanáætlaðar í fjárlagavinnu ársins 2017, enda höfðu orðið miklar kerfisbreytingar sem menn voru enn að reyna að ná utan um í þeim kostnaði. Sumt verður ekki ráðið við. Það er vissulega skylda ráðherra að reyna að bregðast við öðru með einhverjum niðurskurði. Ég hygg að í það minnsta megi heimfæra það á það sem sneri að lyfjakostnaði og sjúkratryggingum, að þar hefði þurft að bregðast við með öðrum hætti.

Ég vil þó taka það fram að í tíð þeirrar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) fannst mér mjög varlega rætt um notkun fjárauka.