149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:55]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það að við þurfum að sjálfsögðu að gæta sanngirni og samkvæmni í gagnrýni okkar og yfirlýsingum. Það var alveg skýrt, þar til upp úr því samstarfi slitnaði haustið 2017, að ekki var komið til umræðu að grípa þyrfti til fjáraukalaga. Enn var gert ráð fyrir því á þeim tímapunkti að þetta mundi rúmast innan ramma hins almenna varasjóðs. (Gripið fram í.)Framúrkeyrslan reyndist síðan mun meiri þegar upp var staðið en meðan ríkisstjórnin var enn starfandi. Síðan breytist ríkisstjórnin í svokallaða starfsstjórn sem tekur engar stórpólitískar ákvarðanir og lauk þriggja mánaða skeiði sínu þannig.

Ég fullyrði það hins vegar fullum fetum að þegar hér birtist síðan fjárauki þá um veturinn, eða í desember á síðasta ári, upp á 21 milljarð, kom það mér verulega á óvart. Það voru vissulega teknar ákvarðanir sem sneru t.d. að uppgreiðslu lána, sem kostaði 8 milljarða en spara ríkissjóði verulega fram á veginn. Taldi ég það uppfylla skilyrði laga um opinber fjármál. En mér fannst líka þar vera bætt inn á lokaspretti talsverðu af útgjaldaliðum sem ég kannaðist ekki við hafandi setið í starfsstjórn þar til fáeinum vikum áður.

Ég er bara að tala um að það þarf að fara mjög varlega með fjáraukann sem slíkan. Mér finnst ég enn sjá meiri og sterkari rökstuðning fyrir því að tína útgjöld inn heldur en hvernig hafi tekist til að koma í veg fyrir þau. Það þykir mér miður.