149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:57]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið sem er að líða, 2018. Fyrir liggur nefndarálit meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Hv. þm. Haraldur Benediktsson, varaformaður nefndarinnar, fór með framsögu, gerði nefndaráliti meiri hlutans mjög góð skil og fór vel yfir þá vinnu sem nefndin fór í á þeim stutta tíma sem hún hafði til að fjalla um málið og stutta tíma frá 1. umr. þar sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir málinu sl. föstudag. Það er ljóst að tíminn hefur verið knappur en við höfum hins vegar reynt að nýta hann eins vel og kostur er.

Í 26. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um frumvarp til fjáraukalaga og þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum.“

Hér er um að ræða sömu skilyrði og sett eru fyrir notkun almenna varasjóðsins. Ákvæðið setur þannig þrengri skilyrði en giltu til að mynda í gömlu fjárreiðulögunum, enda er gert ráð fyrir öðrum úrræðum eins og millifærslum og varasjóði fyrir málaflokka og almenna varasjóðnum sem ætlað er að mæta helstu frávikum frá áætlunum. Því er gert ráð fyrir að umfang fjáraukalaga verði, og eigi að vera, minna en verið hefur í það minnsta. Ég hef greint mjög vel í ræðum hv. þingmanna og nefndarmanna hv. fjárlaganefndar prýðisgagnrýni og sameiginlegan vilja og sýn til að gera betur. Ég tel þó, virðulegi forseti, að við séum á réttri leið og að metnaðurinn sé sá sami. Það er vel. Þegar ég segi að við séum á réttri leið er gert ráð fyrir því að umfang fjáraukalaga nú verði minna en verið hefur. Þó tek ég undir með til að mynda framsögumanni 1. minni hluta, hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, sem kom inn á að varðandi þetta hlutfall, 0,7%, mætti taka tillit til þess að þá var búið að taka úr almenna varasjóðnum. Það er hárrétt ábending.

Við erum vissulega í innleiðingarferli og það er mikilvægt að við nýtum verkfæri laganna og náum þeim markmiðum sem voru m.a. að draga úr umfangi fjárauka. Það var beinlínis markmið og við eigum að vinna að því. Ég held að það hafi komið mjög vel fram hjá öllum þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni hér. Hv. þm. Haraldur Benediktsson dró ekkert undan í því þegar hann fór yfir álit meiri hluta.

Mér finnst mikilvægt að árétta það sem fram kemur í áliti meiri hlutans, að enn sem komið er höfum við ekki náð fullum tökum á beitingu verkfæranna við að uppfylla þessi markmið. Ég dreg fram að enn er t.d. óráðstafað 800 millj. kr. úr almenna varasjóðnum. Þá þarf að rýna betur notkun varasjóða einstakra málaflokka og í því efni er mikilvægt að klára reglugerð um notkun almenna varasjóðsins.

Í 67. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um reglugerðarheimild ráðherra sem skal í reglugerð mæla fyrir um nánari framkvæmd laganna og þar á meðal um varasjóðinn þar sem segir í 6. tölulið 67. gr. að ráðherra skuli í reglugerð mæla fyrir um ráðstöfun fjár úr varasjóði á grundvelli skilyrða sem koma fram í 1. mgr. 24. gr. sem fjallar um almennan varasjóð A-hluta. Það er mikilvægt að við ýtum á eftir því að þessi reglugerð verði kláruð í samræmi við 67. gr. laganna í frumvarpinu.

Ólíkt því sem áður var er nú í frumvarpinu eingöngu fjallað um einstök útgjaldatilefni sem ekki rúmuðust innan ramma fjárlaganna þannig að ekki er um að ræða heildstætt endurmat á fjárlögum. Ég vil þó vísa í töflu á bls. 46 sem birt er í nefndaráliti meiri hlutans sem veitir ágætisyfirlit yfir þau tilefni sem síðan er fjallað frekar um í greinargerð frumvarpsins sjálfs. Þar kemur m.a. fram að breytingar á útgjaldaskuldbindingum eru 56,6 milljarðar kr. Vega þar þyngst til hækkunar tæknileg útgjaldamál vegna breyttrar framsetningar og millifærslna upp á 48 milljarða kr. þar sem fyrst og fremst er um að ræða samræmingu áætlana og reikningsskila í takt við innleiðingu á IPSAS-reikningsskilastaðlinum vegna lífeyrisskuldbindinga og afskrifta skattkrafna og breyttrar framsetningar og flokkast því undir það sem við höfum kallað — og hefur komið fram í umræðunni — tæknilegar færslur þar sem breytingarnar fara, í samræmi við alþjóðlega staðla, í gegnum rekstrarreikninginn.

Eins og hv. framsögumaður greindi ágætlega frá hafa þessar breytingar ekki áhrif á afkomuna samkvæmt 1. gr. fjárlaga þar sem afkoman er í samræmi við svokallaðan hagskýrslustaðal, GFS.

Eftir standa 8,6 milljarðar til breytinga og hækkunar annarra útgjaldamála málefnasviða og málaflokka ráðuneyta. Þar er hæsta fjárhæðin 3,2 milljarðar kr. til hækkunar fjárheimilda vegna yfirtöku lífeyrisskuldbindinga. 985 millj. kr. umfram forsendur fjárlaga skýrast af endurmati á útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs sem koma til af aukinni þátttöku foreldra. Markmiðið var jákvætt og svo var aukinn kostnaður á hvern greiddan dag í fæðingarorlofi vegna launabreytinga. Það er auðvitað jákvætt að fleiri vilja taka orlof.

Þá ratar inn 784 millj. kr. framlag til að efla samning milli ríkis og kirkju, kirkjujarðasamkomulag svokallað. Það kom ágætlega fram í andsvörum hv. þm. og framsögumanns meiri hluta, Haraldar Benediktssonar, og hv. þm. Þorsteins Víglundssonar að þetta væri orðið óþægilega reglubundið og mikilvægt að þetta samkomulag sé klárað þannig að við getum farið að sjá þetta í reglubundnum farvegi fjárlaga. Ég held að það hafi komið fram hjá flestum þeim sem hér hafa talað í dag.

Ég vil aðeins nefna það sem kom fram í umræðunni áðan, það kom umsögn um fjáraukalagafrumvarpið frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Það má alveg skoða það sjónarmið að með kjarasamningsbundnum hækkunum og mismunandi útfærslum sem eiga sér stað í kirkjujarðasamkomulagi við þjóðkirkju þar sem m.a. er verið að greiða laun presta — því er ekki til að dreifa hjá öðrum trúfélögum — að það er auðvitað sjónarmið sem ber að skoða að það geti þróast í átt að einhvers konar mismunun. Það var rökstutt ágætlega í umsögninni. Ég vil koma því á framfæri að sú umsögn barst en ég held að það fari mjög vel á því að taka það heildstætt upp í endurskoðun ríkisfjármálaáætlunar á heildstæðari grunni út frá þessu málefnasviði þegar við förum í gegnum ríkisfjármálaáætlun sem og þetta kirkjujarðasamkomulag sem ekki hefur náð til enda. Fríkirkjan í Hafnarfirði var jafnframt með umsögn um fjárlögin sem sneri að sóknargjöldunum sem eru þá hinn þátturinn. Þessi trúfélög fá sóknargjöld sem taka ekki sömu breytingum og í gegnum þetta kirkjujarðasamkomulag. Ég vil koma því að hér, virðulegi forseti, að við tökum þetta mál heildstætt fyrir við endurskoðun ríkisfjármálaáætlunar.

Samgöngumál eru 569 millj. kr., helst vegna snjómoksturs og seinkunar Vestmannaeyjaferju, þeirrar nýju sem svo er kölluð. Fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd fær 500 millj. kr. Búist var við fækkun umsókna en umsóknum frá ríkjum sem ekki teljast til öruggra ríkja hefur ekki fækkað eins og vonast var eftir. Um þetta fengum við svar en í ljósi þess að það var stuttur tími sendum við spurningar á öll ráðuneytin til að bregðast við þeim útgjaldatilefnum sem ég er að fara yfir.

Þá er hér framlag til rammaáætlunar vísindarannsókna ESB upp á 491 millj kr. Í umræðunni hafa komið fram umframútgjöld vegna sjúkraþjálfunar, 469 millj. kr. Það er athyglisvert mál sem kemur til af því að eftirspurn eftir sjúkraþjálfun eykst í kjölfar nýs greiðsluþátttökukerfis þar sem komum hefur fjölgað um 17% en segja má að það hafi að einhverju marki þróast með jákvæðum hætti þar sem greinilega hefur dregið úr stoðkerfisvandamálum. Það er litið til fjölgunar þeirra sem metnir eru með 75% örorku vegna stoðkerfisvanda og það er út af fyrir sig jákvætt. Það segi ég með fyrirvara um mat á fjárhagslegum ávinningi. Ég ræddi þetta við hv. þm. Birgi Þórarinsson í andsvari og get tekið undir með því sem kom fram hjá hv. þingmanni og í svörum frá ráðuneyti að við þurfum að skoða þá samninga. Ráðherra ber að skoða hvernig bregðast skuli við. Það þarf m.a. að meta það jákvæða sem kemur til af þessu og svo kostnaðaraukann og meta það í einhvers konar samhengi.

Vinnumarkaður og atvinnuleysi hækkar um 480 millj. kr. vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs, vinnustaðasamninga og aukinna útgjalda Ábyrgðasjóðs launa vegna aukningar gjaldþrota fyrirtækja á árinu en umtalsverð fjölgun hefur orðið á gjaldþrotum fyrirtækja frá fyrra ári. Fyrstu níu mánuði ársins eru þau 750 talsins sem er tæplega 60% fjölgun frá sama tímabili ársins 2017. Það þarf að skoða. Eins og kom fram í nýlegu viðtali við forstjóra Vinnumálastofnunar, Gissur Pétursson, í fréttamiðli væri þess virði að rannsaka betur þá óværu í okkar efnahagslífi, svo ég noti hans orð, sem við nefnum kennitöluflakk.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að vitna í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar um vinnumarkaðinn þar sem segir:

„Ríkisstjórnin vill vinna með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgum vinnumarkaði. Innleiða þarf ákvæði um keðjuábyrgð í ólíkum atvinnugreinum, vinna gegn kynbundnum launamun, félagslegum undirboðum, mansali og kennitöluflakki og efla vinnueftirlit.“

Þær tölur sem ég fór yfir áðan tala sínu máli og ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að fylgja þessum áformum eftir í því lifandi samtali sem hún hefur m.a. átt við aðila vinnumarkaðarins.

Ég ætla að koma aðeins að vinnusamningum öryrkja. Þeim hefur fjölgað umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir og því er mætt með viðbótarheimild upp á 187 millj. kr. Vinnusamningum öryrkja hefur fjölgað um meira en 20% miðað við áætlun fjárlaga þannig að eftirspurn eftir vinnusamningum hefur vaxið mjög mikið á árinu. Það eru afar jákvæðar fregnir. Eðlilega skiptir þetta úrræði miklu máli fyrir þennan hóp. Hins vegar er rétt að geta þess hér að það er metið svo að með 250 millj. kr. viðbótarframlagi við 2. umr. fjárlaga sé þessi liður ekki talinn vanmetinn inn á árið 2019. Það er jákvætt þegar maður fær skýringar á því af hverju kostnaðaraukinn er og við hverju er verið að bregðast. Þá erum við að ná einhverjum árangri í því sem við erum að reyna að fá fyrir þau útgjöld sem við leggjum til.

Það sem skiptir kannski helst máli við frávik frumútgjalda sem hlutfall af fjárlögum er að þau hafa ekki verið lægri síðan 2013. Ég kom aðeins inn á það fyrr í ræðunni að við hefðum kannski ekki náð fyllilega upprunalegum markmiðum um að draga úr umfangi fjárauka og að beita þeim verkfærum sem lögin um opinber fjármál færa okkur. Þetta er vísbending um að nú horfi til betri vegar. Hlutfallið er 0,7% en ég ítreka að það er auðvitað rétt að taka tillit til almenna varasjóðsins í þessu eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson benti á. Í tölfræðinni sem ég hef úr meirihlutaáliti fjárlaganefndar var á árabilinu 1998–2008 meðaltal frávika í fjáraukalögum um 5% af frumútgjöldum en í kjölfar bankahruns og stóraukins aðhalds sem af því leiddi varð hlutfallið 1,6%. Ef við tökum varasjóðinn með erum við farin að slaga upp í það hlutfall.

Engu að síður má alveg horfa jákvætt á þessar tölur. Við viljum trúa því að við séum á réttri leið með að nýta okkur það sem lagt var upp með með lögum um opinber fjármál og beita réttum verkfærum til þess.

Ég fór yfir breytingar á fjárheimildum eftir tilefnum en einnig er í greinargerð frumvarpsins gerð grein fyrir breytingu fjárheimilda eftir hagrænni skiptingu í rekstrartilfærslur, fjármagnstilfærslur og fjárfestingarframlög. Þá er einnig að finna umfjöllun um breytingar fjárheimilda eftir málefnasviðum.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar um hlutverk fjáraukalaga að í dag eru hvorki lagðar til breytingar á tekjuhlið fjárlaga né lagðar til heildstæðar breytingar á útgjaldahlið í frumvarpinu með tilheyrandi áhrifum á afkomu og sjóðstreymi ríkissjóðs eins og áður var. Það er beinlínis gert ráð fyrir að fram fari endurmat á afkomunni.

Um endurmat á afkomu ársins 2018 má hins vegar sjá í greinargerð og lesa í töflu á bls. 55 sem byggir á nýjustu þjóðhagsspá Hagstofu Íslands að þar er gert ráð fyrir að bæði tekjur og gjöld verði lítillega hærri en gert var ráð fyrir, að áætlaðar heildartekjur verði 4,4 milljörðum hærri en í fjárlögum og að heildargjöldin verði um 700 millj. kr. hærri. Það eru óveruleg frávik, frá 807,3 milljörðum í 808 milljarða. Ég rak augun í að í áliti meiri hluta fjárlaganefndar kemur fram á bls. 3 um gjöld ríkissjóðs að áætlað er að heildargjöldin verði nánast þau sömu og í fjárlögum ársins, þ.e. um 0,7 milljörðum kr. lægri. Þetta á auðvitað að vera hærri, 700 milljónum hærri, svo ég komi því að.

Nefndin hafði vissulega óvenjuskamman tíma og brá á það ráð að kalla eftir upplýsingum og svörum frá ráðuneytum og tíminn sem gefinn var til svara var ekki mikill. Ég vil nota tækifærið og taka undir með hv. framsögumanni nefndarinnar, Haraldi Benediktssyni, um þakkir til fjármálastjóra ráðuneytanna fyrir skjót viðbrögð.

Þau svör skiluðu ágætisútskýringum (Gripið fram í.) svo sem hv. framsögumaður gerði góð skil í framsögu og yfirferð nefndarálits meiri hlutans. Eins er með þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar leggur til.

Samtals er hækkun gjaldheimilda frá frumvarpi vegna þessara færslna 248,1 millj. kr. og vegur þar þyngst framlag til nýsköpunar, svokallaðir þjálfunarstyrkir, 137,9 millj. kr., til Algalíf Iceland ehf. sem byggir á grundvelli fjárfestingarsamnings sem ríkisstjórn Íslands gerði 28. janúar 2014. Þar er kveðið á um, með fyrirvara um sérstaka heimild í fjárlögum samkvæmt ákvörðun Alþingis, að félagið eigi rétt á þjálfunaraðstoð vegna kostnaðar sem hlýst af þjálfun starfsmanna. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur nú yfirfarið það og staðfest og Alþingi fær nú tækifæri til að fjalla um það mál.

Þá er um að ræða svokallaðar leiðréttingar og millifærslur sambærilegar við þær sem við sáum í fjárlögum, samtals 300 millj. kr. á 11 liðum. Þá er gerð tillaga um að falla frá 25 millj. kr. framlagi til Þjóðleikhússins sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu í tengslum við kjarasamninga. Meiri hlutinn leggur til að þess í stað verði því verkefni vísað á almennan varasjóð fjárlaga eins og lögin myndu gera ráð fyrir vegna þess að þar er um að ræða kjarasamningstengd atriði umfram forsendur fjárlaga.

Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls um mikilvægi þess að við virðum markmið laga um opinber fjármál um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi og öguð vinnubrögð og þakka hér í lokin allri hv. fjárlaganefnd fyrir góða vinnu.