149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessi skilaboð og hlakka til að styðja hæstv. formann fjárlaganefndar í þeirri vinnu sem verður í framhaldinu. Sem sagt ekki varðandi innleiðingu heldur að framfylgja lögunum.

Og fyrst að við erum að tala um ársskýrslur hlakka ég mjög mikið til að sjá næstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og vonast til þess að hún verði þannig fram sett að ársskýrslur ráðherra verði gagnlegar. Þær ljúka einmitt ferlinu sem er mat á því hvernig til tókst við að framfylgja stefnu ráðherra sem sett var fram í fjármálaáætlun. Ef stefnan er ekki lögð fram t.d. með kostnaðarmati o.s.frv. er ómögulegt að meta það í ársskýrslunni hvort þær fjárheimildir sem lagðar voru til í stefnunni og aðgerðir sem fylgja stefnunni, hafi skilað tilætluðum árangri eða ekki. Ef við erum ekki lengur í innleiðingarferli á það við líka um fjármálaáætlunina, sem er fyrsta skrefið í áttina að ársskýrslunni sem slíkri.

Ég hlakka til að sjá fjármálaáætlun næsta árs. Ég hlakka til að sjá hvernig við förum yfir notkun varasjóðs og þá mögulega ekki fjárauka á næsta ári.