149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[17:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni vangaveltur í seinna andsvari. Hann skildi ekki eftir neina beina spurningu en ég deili alveg þessari tilhlökkun. Af hverju segi ég það? Vegna þess að nú erum við búin að klára ríkisfjármálaáætlun og svo erum við að fara í endurskoðaða ríkisfjármálaáætlun. Nú erum við búin að fara í gegnum tvenn fjárlög og við erum með ríkisfjármálastefnu að baki þeim, eins og lögin kveða á um. Þetta var virkilega mikil yfirferð og umfjöllun í gegnum ríkisfjármálaáætlunina. Hv. fjárlaganefnd stóð sameiginlega að fjölmörgum ábendingum, á þriðja tug ábendinga, sem mjög mikilvægt er að halda utan um og fylgja eftir. Af því að hv. þingmaður kom inn á stefnu og markmið sem fylgja stefnu á einhverri leið, ef við tölum stefnumótunartungumálið, sem ég veit að hv. þingmanni er mjög hugleikið er jafnframt mikilvægt að fá tölusett markmið. Að fækka þeim enn frekar og hafa þau skýr og tölusett, kostnaðarmetin.

Við erum alveg á sömu línu í þeim efnum og þess vegna deili ég algjörlega þessari tilhlökkun.

En svo er annað, svo ég endi á því sem við hófum umræðuna á varðandi innleiðingarferlið, að ég er ekki viss um að við fáum alla í kringum okkur til að hætta að tala um innleiðingarferli. En ég skil skilaboðin og mun sannarlega hafa þau í huga.