149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

471. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi sem flutt er af formönnum þingflokka á þingi eða fulltrúum þingflokka. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Jón Þór Ólafsson, Hanna Katrín Friðriksson og Inga Sæland.

Frumvarpið á sér alllanga forsögu, eins og rakið er í greinargerð. Segja má að rótin að því að þessi mál hafa verið tekin til skoðunar sé í breytingum sem gerðar voru á lögum um þingfararkaup og fleira á árinu 2007. Þá var komið á því fyrirkomulagi að heimilt væri að ráða aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka og þingmenn landsbyggðarkjördæmanna þriggja fengu heimild til að ráða starfsmann í hlutastarf. Sá þáttur aðstoðarmannakerfis var síðan tekinn úr sambandi á árinu 2009 í kjölfar hrunsins, en aðstoðarmenn formanna flokkanna héldu áfram störfum.

Hugmyndin á bak við það var að jafna aðstöðu formanna stjórnmálaflokka sem ekki eiga aðild að ríkisstjórn, við stöðu formanna sem eru í ríkisstjórn og hafa aðstoðarmenn sem ráðherrar. En engu að síður voru stórir hlutar þess aðstoðarmannakerfis sem var tekið upp árið 2007 teknir úr sambandi í kjölfar hrunsins. Segja má að þegar aðstæður í efnahagsmálum og ríkisfjármálum fóru batnandi hafi menn farið að huga að því með hvaða hætti hægt væri að efla aðstoð við þingmenn og þingflokka með öðrum hætti. Í fjármálaáætlun 2017 var strax farið að gera ráð fyrir því að veittir yrðu fjármunir til þingsins sem gæfu kost á því að taka upp kerfi af þessu tagi og var þá raunar reiknað með að þetta kerfi kæmi fyrr til framkvæmda en nú er raunin.

Staðan er sú að í fjárlögum 2019 er svigrúm til að bæta aðstoð við þingmenn og þingflokka að þessu leyti. Í ljósi þess hefur verið unnið að því, fyrst á vegum forsætisnefndar Alþingis en síðan á vettvangi formanna þingflokkanna, að útfæra þær breytingar sem þessu fylgja. Segja má að forsætisnefnd hafi tekið stefnumarkandi ákvörðun á sumarfundi sínum um að hefja innleiðingu þessa aðstoðarmanna- eða starfsmannakerfis og þegar þing kom saman á haustdögum færðist nánari útfærsla að stórum hluta yfir á hendur formanna þingflokka.

Það er á þeim grundvelli sem formenn þingflokka koma að flutningi þessa máls.

Ég ætla ekki að fara ítarlega yfir greinargerðina eða þau rök sem rakin eru þar varðandi aukna aðstoð eða aukinn rétt þingflokka til að ráða starfsmenn. Ef við horfum til þinganna í kringum okkur er almenna reglan sú að þingmenn eða þingflokkar hafa töluvert ríflegri rétt til að ráða starfsmenn eða aðstoðarmenn sem sinna pólitískum verkefnum en verið hefur hér á landi. Algengt er að þar sé um að ræða stöðugildi sem geta verið frá einum starfsmanni og upp í tvo, þrjá, það fer eftir þingum, sem fylgja hverjum einasta þingmanni. En í þeim tillögum sem hér liggja til grundvallar er gert ráð fyrir töluvert hógværari og varfærnari nálgun.

Segja má að málið sé tvíþætt. Annars vegar er um að ræða það frumvarp sem hér liggur fyrir og hefur þann tilgang að búa til eða styrkja lagagrundvöll fyrir ráðningu starfsmanna af þessu tagi, og er sem slíkt nauðsynlegur liður í þessari áætlun okkar hér í forystu þingsins. Hitt málið er síðan nánari útfærsla á ráðningu starfsmanna sem ræðst auðvitað af tvennu, annars vegar fjárheimildum á hverju ári og síðan af samkomulagi milli þingflokka um það hvaða viðmiðanir gildi þegar verið er að skipta stöðugildum milli þingflokkanna.

Ef ég kem fyrst að efni frumvarpsins sjálfs vildi ég geta þess að efnisatriðin eins og þau birtast í 1. gr. frumvarpsins felast í heimild til að ráða starfsmenn fyrir þingflokka. Hinn formlegi þáttur ráðningarinnar liggur hjá þinginu þannig að viðkomandi starfsmenn verða starfsmenn Alþingis. Það liggur hins vegar fyrir að það eru þingflokkarnir sjálfir sem stjórna því hverjir eru ráðnir til verka og hafa um leið verkstjórnarhlutverk gagnvart þessum starfsmönnum. Um hina formlegu umgjörð starfanna gildir því það sama og um opinbera starfsmenn, að því marki sem það á við, og heldur skrifstofa Alþingis utan um mál þeirra sem starfsmanna út frá formlegum og lagalegum forsendum. En það eru hins vegar þingflokkarnir sem ákveða hverjir eru ráðnir til starfa og hver dagleg störf þeirra eiga að vera.

Í frumvarpinu er líka hugsað fyrir ákveðnum réttindum þessara starfsmanna. Gert er ráð fyrir því að þar sem hér er um pólitísk störf að ræða sé um að ræða tímabundin störf. Þau miðast við lok kjörtímabils ef ekki er annað ákveðið. En auðvitað eru heimildir til uppsagna á öðrum tímum. Engu að síður er gert ráð fyrir ákveðnum réttindum þeirra varðandi starfslok og starfsskilyrði miðað við það sem hér er kveðið á um. Þannig að segja má að þó að sveigjanleikinn sé meiri en þegar kemur að stöðu opinberra starfsmanna almennt eru engu að síður ákvæði í frumvarpinu sem eiga að tryggja réttarstöðu viðkomandi einstaklinga.

Í frumvarpinu er þessi lagaheimild lögð til. Gert er ráð fyrir því að það verði með þeim hætti að þingflokkarnir hafi tækifæri til að ráða starfsmenn. Í frumvarpstextanum er áfram gert ráð fyrir hinum sérstöku aðstoðarmönnum formanna stjórnmálaflokkanna og eins eru ákvæði sem tryggja eiga stöðu þeirra sem nú þegar eru í störfum af þessu tagi, þannig að réttarstaða þeirra sem nú eru t.d. aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka á ekki að breytast við gildistöku þessara laga.

Ég vísa til greinargerðar með frumvarpinu um hver hugmyndin er með því að koma að þessu aðstoðarmannakerfi eins og það hefur verið kallað í vinnu okkar. Það er byggt á því að þingmenn þurfi á aðstoð að halda í sínum fjölbreyttu störfum, t.d. við undirbúning lagafrumvarpa, í sambandi við nefndastörf sem þeir eru að vinna; það getur verið í formi gagnaöflunar, í formi aðstoðar við að semja nefndarálit eða breytingartillögur eða annað þess háttar þar sem reynir á pólitíska þætti og pólitíska stefnumörkun, ef svo má segja, hugsanlega umfram það sem hægt er að ætlast til af hinu fasta starfsliði Alþingis, sem auðvitað er og verður áfram mikilvægt en hefur hins vegar miklu meiri aðkomu að formlegri hlið mála en efnisinnihaldi. Ekki er sanngjarnt að ætlast til þess að hið fasta starfslið Alþingis, nefndarritarar eða aðrir vinni störf sem eru í eðli sínu pólitísk og í þágu einstakra stjórnmálaflokka eða einstakra stjórnmálastefna.

Það má segja að einn aðaltilgangurinn með því að fá þessa starfsmenn hingað til þingflokkanna sé að auka möguleika þeirra til að nýta starfsmenn í undirbúningsvinnu, sem verður auðvitað enn og aftur á ábyrgð þingmanna sjálfra. Þeir hljóta að hafa meginhlutverk í sambandi við að leiða þá vinnu og fylgja henni eftir á vettvangi þingsins. En aðstoðin, sem getur í senn lotið að pólitískri stefnumörkun, gagnaöflun og öðru slíku sem nauðsynlegt er til að gera þingmál vel úr garði eða fylgja málum eftir þegar þau eru lengra komin í þinginu, er líka mikilvæg. Vonir okkar standa til þess að þau skref sem ætlunin er að stíga núna á næsta ári í þessa átt bæti störf þingsins, ekki síst þátt lagasetningarinnar, auki vandvirkni og geri það að verkum að það sem kemur út úr störfum okkar hér í þinginu verði landi og þjóð til meira gagns.

Við verðum að ætla þingflokkum ákveðið svigrúm í sambandi við hvernig kraftar þessara starfsmanna eru nýttir. Hér eru ákveðnar leiðbeiningar í greinargerð með frumvarpinu þar sem m.a. er getið um, eins og ég gat um áðan, aðstoð við undirbúning við gerð þingmála, fyrirspurna eða breytingartillagna, aðstoð við þingmenn í sambandi við gagnaöflun, nefndarstörf, undirbúning nefndarálita og önnur samskipti sem nauðsynleg geta verið fyrir hönd þingmanna, bæði við einstaklinga, stofnanir, samtök og aðra. Þó að þetta svigrúm sé fyrir hendi er hugmyndin sú að kröftum þessara starfsmanna verði varið í þágu þingstarfanna en ekki t.d. í þágu almenns flokksstarfs eða einhverra slíkra þátta.

Aðrir þættir sem verið hafa til umræðu fyrr í dag lúta að starfsemi stjórnmálaflokkanna sem samtaka en hér er áherslan á að þingmenn eigi rétt á aðstoð starfsmanna til þess að sinna störfum sínum sem best á vettvangi þingsins.

Þetta vildi ég segja um tilganginn með þessum breytingum. Auðvitað er ætlunin að auka þessa aðstoð til að þingmenn geti sinnt störfum sínum betur. Eins og rakið er í greinargerðinni er aðstoðin með ýmsum hætti. Þeir sem hafa áhyggjur af því að hér sé farið of geyst geta séð upplýsingar í greinargerðinni um hvernig þessum málum er háttað í öllum helstu nágrannalöndum okkar. Ég held að niðurstaðan af því verði sú að þau skref sem hér er verið að stíga séu frekar varfærin og hógvær miðað við það sem gengur og gerist.

Ef við horfum á að breytingarnar eins og við áformum þær leiði til þess að hér verði í fyllingu tímans, í lok þessa kjörtímabils, búið að ráða inn 17 nýja starfsmenn á þessum forsendum er það tiltölulega lágt hlutfall ef við horfum til þess sem gerist í löndunum í kringum okkur.

Auðvitað á gagnrýni á útgjöld vegna starfa Alþingis, ríkisstjórnar eða annarra alltaf rétt á sér. Þeir sem fara með það vald að ákveða fjárveitingar til opinberra verkefna verða alltaf að fara með það af varkárni. Í þessu frumvarpi og þeim áformum sem liggja því til grundvallar er verið að fara ákveðinn milliveg. Talað er um að auka aðstoðina. Hér innan þings hafa margir talað fyrir því að í fyllingu tímans væri eðlilegt að hver þingmaður hefði sinn aðstoðarmann. Það má segja að með því að stíga þau skref sem hér er gert ráð fyrir á þessu kjörtímabili förum við hálfa leið í þá átt þegar til allra þátta er litið, m.a. hvaða þingmenn, sem jafnframt eru ráðherrar fá aðstoðarmenn, eða hvaða formenn stjórnmálaflokka fá aðstoðarmenn. Þá er hlutfallið þannig að þegar breytingin hefur náð fram að ganga við lok þessa kjörtímabils verður kominn u.þ.b. einn aðstoðarmaður á hverja tvo þingmenn þegar allt er talið. Það er svona um helmingi minna en gerist í flestum löndum í kringum okkur.

Þetta vildi ég að kæmi fram í þessari umræðu vegna þess að vissulega hefur komið fram gagnrýni á þetta mál á undirbúningsstigi sem einkum lýtur að því að hér sé enn eitt dæmið um að stjórnmálastéttin í landinu sé að hlaða undir sjálfa sig. En ég verð þó að benda á að hér er verið að stíga mjög varfærin skref. Verið er að fara í þetta í áföngum, ekki er gengið mjög langt í einu. Á bak við þetta búa þau rök að vegna þeirra starfa sem þingmenn eiga að sinna í þinginu sé bæði eðlilegt og heppilegt að þeir geti notið aðstoðar sem lýtur að pólitíska hlutanum í störfum þeirra, ekki bara hinu formlega heldur líka hinum pólitísku verkefnum. Til að sinna þeirri aðstoð við þingmenn er ekki óeðlilegt að ráðnir séu pólitískir aðstoðarmenn frekar en hlutlausir sérfræðingar, ef svo má segja. Hlutlausu sérfræðingana höfum við hér í þinginu nú þegar og raunar er verið að bæta við í samræmi við þá stefnumörkun sem verið hefur bæði af hálfu núverandi forystu þingsins og einnig af hálfu núverandi ríkisstjórnar, um að efla Alþingi sem stofnun og efla alþingismenn í þeirra störfum. Bætt hefur verið við sérfræðingum á skrifstofu Alþingis en þeir hafa eðli málsins samkvæmt hlutleysisskyldu. Það er ekki hægt að fela þeim að vinna að pólitískum undirbúningsverkefnum sem engu að síður eru mikilvæg. Úr því er verið að reyna að bæta með þessu frumvarpi.

Ég vildi geta þess í lokin að þegar þetta frumvarp er samþykkt er komin lagaheimild. Fjárlög gera ráð fyrir fjárheimild en hins vegar byggir útfærslan, þ.e. hvernig störf skiptast milli þingflokka, á samkomulagi sem gert hefur verið á vettvangi þingflokksformanna. Þar hafa setið þingflokksformenn allra flokka og/eða aðrir fulltrúar viðkomandi þingflokka. Ástæða þess að þetta frumvarp kemur ekki fram fyrr en nú er sú að leitast var við að ná sem víðtækustu samkomulagi milli flokka í þinginu um niðurstöðuna. Það tókst með þeim hætti að allir þingflokkar í þinginu standa að þessu frumvarpi og styðja það.

Það sem skiptir mestu máli í samkomulagi þingflokksformanna, sem fylgir með sem fylgiskjal með frumvarpinu, er að við bætast 17 starfsgildi eða stöðugildi á þessu kjörtímabili. Það leiðir til þess að á árinu 2019, á næsta ári, verður heimilt að ráða inn átta starfsmenn, einn starfsmann á hvern þingflokk óháð stærð, en á árinu 2020 bætist við fimm aðrir starfsmenn og fjórir árið 2021. Þegar þessum stöðugildum verður úthlutað á árunum 2020 og 2021 verður reiknireglu d'Hondts beitt til að finna út hvernig eigi að skipta stöðugildunum milli þingflokkanna. Er þá miðað við tölu þingsæta hvers þingflokks að frátöldum þingmönnum sem þegar hafa aðstoðarmenn, þ.e. ráðherrum og formönnum stjórnmálaflokka.

Í fylgiskjalinu má sjá á hvaða reiknireglu er byggt og hvernig innleiðingin á að skila sér til einstakra flokka á hverju ári fyrir sig. Þetta fylgiskjal er minnisblað sem formenn þingflokka sendu til forseta Alþingis og forsætisnefndar 27. nóvember síðastliðinn.

Rétt er að geta þess að frá því að það samkomulag var gert hafa orðið nokkrar breytingar í þinginu og má segja að forsendur hafi að nokkru leyti breyst, þ.e. þær forsendur sem liggja til grundvallar útreikningunum. Þingflokkur Flokks fólksins er ekki lengur fjögurra manna þingflokkur heldur tveggja manna og tveir þingmenn eru utan þingflokka. Í framhaldi af því hafa orðið í hópi formanna þingflokkanna umræður um hvernig og hvort ætti að bregðast við, bæði í þessu einstaka tilviki og eins almennt þegar til framtíðar er litið. Niðurstaða okkar formanna þingflokka og fulltrúa þingflokka sem varðar fyrra atriðið er að samkomulagið frá því í lok nóvember verði efnt eins og það var sett fram og undirritað, og að það komi til framkvæmda á næsta ári þegar og ef þetta frumvarp hlýtur samþykki í þinginu. Að því er varðar seinna atriðið, hvernig þessum málum verður skipað til framtíðar, finnst mér rétt við þessa umræðu að tilkynna að milli þingflokkanna hefur tekist samkomulag um að verði breyting á stærð þingflokka innan kjörtímabils sé eðlilegt að fjöldi starfsmanna þeirra komi til endurskoðunar, þó þannig að gætt sé að réttindum þeirra starfsmanna sem þegar eru í starfi, að þeir hafi uppsagnarfrest í samræmi við lög, en jafnframt að nýir flokkar eigi möguleika á að fá aðstoð svo fljótt sem auðið er og í samræmi við hvað rúmast innan fjárheimilda ársins.

Í þessum umræðum formanna og fulltrúa þingflokkanna er gert ráð fyrir því að það komi til endurskoðunar verði breytingar á þingflokkum ef þeir stækka, minnka, klofna eða hvernig það getur gerst. En áfram verði við endurskoðunina byggt á sömu meginreglu um heimildir til ráðningar starfsmanna, þ.e. hlutfallslegum styrk þingflokkanna. Þetta viðbótarsamkomulag, ef svo má segja, þarf að liggja fyrir við afgreiðslu þessa máls og mér finnst rétt að tilkynna um það hér, í samráði við alla flutningsmenn sem jafnframt eru fulltrúar þingflokka sinna, þannig að það sé enginn vafi á því, að verði breytingar — það er gert ráð fyrir því sem sagt að fylgiskjal 1 verði eins og það stendur en komi til frekari breytinga síðar á þessu kjörtímabili verður vissulega um það að ræða að það verða breytingar á skiptingu stöðugildanna í samræmi við þau meginsjónarmið sem hér hafa verið rakin.

Það er líka rétt að geta þess að það hafa verið ákveðin meginsjónarmið ríkjandi lengi um að aðstoð við þingflokka, sem hefur verið kölluð sérfræðiaðstoð við þingflokka, ráðist af stærð þingflokka og hlutfallslegri skiptingu. En það má geta þess að hún hefur jafnan komið til reglulegrar endurskoðunar þegar breytingar verða á stærð þingflokka, þingmönnum fækkar þar eða fjölgar eða hvernig það er, frá einu tímabili til annars.

Við göngum út frá því að fara í þriggja ára ferli við innleiðingu þessa nýja kerfis. Við höfum sett upp áætlun um með hvaða hætti það verður gert. Ef forsendur breytast með einhverjum hætti á þessu tímabili til loka kjörtímabilsins erum við sammála um að setjast niður og fara í endurskoðun sem byggi á þeim meginsjónarmiðum sem hér hafa verið rakin, þ.e. að aðstoð við þingmenn hljóti að byggja í meginatriðum á stærð þingflokka eða fjölda þingmanna í hverjum þingflokki. Þó sé jafnframt tekið tillit til annarra þátta eins og hversu margir í þingflokknum njóti sérstakrar aðstoðar sem formenn eða ráðherrar eða annað þess háttar. Í öllu þessu aðstoðarmannakerfi, bara þannig að þess sé getið, er ákveðið gólf, ef svo má segja, sem tryggir að um leið og þingflokkur hefur verið stofnaður og hefur ákveðna stöðu fær hann ákveðna lágmarksaðstoð.

Segja má að kerfið í heild sé til þess fallið að gefa öllum ákveðinn lágmarksstuðning, óháð stærð þingflokka. En þegar breytingarnar hafa náð fram að ganga verður með auknum hætti tekið tillit til stærðarinnar, sem er líka sanngjarnt af því að grundvöllur þessara breytinga, grundvöllurinn á bak við að heimilt sé að ráða starfsmenn til að aðstoða þingmenn, er auðvitað að þingmenn sem slíkir eigi rétt á aðstoð í sínum störfum.

Við teljum að með því að fara þá leið sem hér er lögð til sé í raun og veru verið að undirbúa kerfið til frambúðar. Við fetum okkur varlega inn í það. Það er kannski nauðsynlegt, bæði til að gæta að því að fara ekki of glannalega þegar kemur að fjármunum hins opinbera en um leið þannig að passað sé upp á að allir þingflokkar, jafnvel þeir smæstu, njóti aðstoðar með þessum hætti og eigi kost á að nýta sér þetta kerfi til þess að efla og bæta störf og vinnubrögð innan þingsins.