149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

471. mál
[18:21]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið, en kem hingað upp til að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að leiða þetta mál og halda utan um það. Það hefur lengi verið á dagskrá þingsins að styrkja þingflokkana. Ég held að það sé tímabært að við förum að stíga fleiri skref í þá átt, í raun einhver skref. Við sem höfum verið í erlendu samstarfi og höfum kynnst þingmönnum annarra þinga, þingum annarra landa, sjáum að þar er yfirleitt allur annar bragur á því og allt annað utanumhald utan um starf þingmannsins. Þetta er gríðarlega fjölbreytt, fjölþætt og skemmtilegt starf, mikið utanumhald, og ég fagna því að við séum að stíga þessi skref.

Þetta frumvarp er, eins og fram kemur, liður í áætlun um að styrkja Alþingi og störf þess og tilgangurinn þá sérstaklega að þeir þingmenn sem enga aðstoð hafa fái hana beina sem slíka. Það hjálpar okkur í vönduðum vinnubrögðum og ekki hvað síst finnst mér ánægjuleg áherslan á að styrkja minni þingflokkana sérstaklega, því að ég veit að mikið álag er á þá einstaklinga sem eru í þeim flokkum, þeir þurfa að dekka marga umræðuna, fyrir utan allt annað starf hér og svo nefndastörfin. Ég held að það sé mjög jákvætt skref. En við þurfum líka að sýna ráðdeild og gott utanumhald utan um fjármunina og hvernig við verjum þeim. Ég held við séum búin að ramma það ágætlega inn með þessu frumvarpi sem við stöndum öll að og við erum sammála um að stíga þessi skref saman. Það er mjög mikilvægt að við höldum líka utan um starfsumhverfi starfsmanna flokkanna, að réttur þeirra og réttindi séu tryggð og að fast sé haldið utan um það.

Ég fagna því að þetta sé fram komið og þakka ágætum flutningsmanni fyrir ágæta framsögu og góða yfirferð.