149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

471. mál
[18:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er gott mál, ég er á því. Við funduðum, held ég, átta til níu sinnum um þetta og áttum mjög góðar og málefnalegar umræður um sjónarmiðin, hvernig þessu er skipt, hve margir aðstoðarmenn eru í boði o.s.frv. Þetta frumvarp þýðir að ég og aðrir þingmenn getum sinnt starfi okkar betur fyrir kjósendur sem treysta okkur. Við sem erum ekki endilega lögfræðimenntuð getum sinnt starfi okkar betur. Við viljum hafa á þingi alls konar fólk, með alls konar styrkleika, og til þess að geta betur sinnt starfi okkar sem þingmenn þurfum við aðstoðarmenn eins og lögfræðinga og verkefnastjóra o.s.frv. sem geta haldið utan um þá hluti sem við erum ekkert klár í að halda utan um. Við getum passað upp á stefnuna sem við berjumst fyrir, þau sjónarmið og gildi sem við viljum að séu í forgangi, varið það og eflt í starfi okkar sem þingmenn. Ég er sérstaklega ánægður með það. Ég mundi vilja ganga miklu lengra. Mér finnst að hver þingmaður ætti að hafa sinn eigin aðstoðarmann. En við erum ekki að fara þangað núna. Þannig er það í Svíþjóð og rúmir tveir aðstoðarmenn eru á þingmann í Danmörku. Í þessu skrefi er verið að fara í áttina að hálfum starfsmanni. Þetta mun samt bæta starfið okkar gríðarlega mikið.

Ég get t.d. ekki sinnt mínu starfi vel. Við Píratar notuðum aðstoðarmenn formanns þegar við vorum þrjú. Þá notuðum við aðstoðarmenn formannsins í að sinna öllum þingflokknum, vorum þá með 1/3 starfsmann og vorum að sjálfsögðu með lögfræðing. Ef við hefðum ekki haft það þá hefðum við ekki getað sinnt starfi okkar eins vel og við gerðum, eins faglega og við gerðum. Við hefðum ekki getað sinnt umbjóðendum okkar, kjósendum okkar, eins vel og við gerðum. Þetta er því gríðarlega stórt framfaraskref hvað það varðar.

Ég get nefnt dæmi. Það er oft verið að tala um starf þingmannsins. Þegar fólk sér tóman þingsalinn spyr það: Hvar eru allir þingmennirnir? Hvað eru þeir að gera o.s.frv.? Sem dæmi þá er ég núna búinn að taka saman gott excel-skjal með öllum verkefnunum mínum. Þau voru orðin það mörg að ég þurfti einhvern veginn að flokka þau. Ég tók það saman hvaða ábyrgðarsvið ég hef. Sem Pírati hef ég ákveðin ábyrgðarsvið innan flokksins og í þingstarfinu er ég alla vega með níu hatta. Ég er í þingflokki Pírata, ég er ritari þingflokks Pírata, ég er talsmaður barna fyrir þingflokk Pírata. Allt þetta felur í sér ákveðin ábyrgðarsvið og ákveðin verkefni sem detta inn hvað það varðar. Ég er svo nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ég er 2. varaformaður og þar af leiðandi í stjórn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég er í undirnefnd þar varðandi rannsókn á einkavæðingu bankanna. Svo er ég í forsætisnefnd og þar af leiðandi í stjórn þingsins með ábyrgðarsvið þar og varaforseti sem þýðir að ég sinni stundum þeirri skyldu að vera hér sem slíkur á þingfundum. Þetta er bara þingstarfið. Svo þurfa stjórnmálamenn líka að sinna flokksstarfinu.

Það eru gríðarlega mörg ábyrgðarsvið sem heyra undir okkur. Mig langaði bara að koma þessu inn í umræðuna. Margir þingmenn hafa talað um þetta og fólk hefur spurt: Hvað eruð þið þingmenn raunverulega að gera? Og undir þessum höttum, ef við getum sagt sem svo, eða ábyrgðarsviðum, þá er ég nú með u.þ.b. 23 virk verkefni í þingstarfinu. Það að geta haft aðstoðarmenn til að halda utan um það verður til þess að ég get þá spurt: Hvað þýðir þetta lögfræðilega, er ég að taka rétta ákvörðun út frá stefnu míns flokks út frá því sem ég var kosinn til að gera? Það er ómetanlegt. Ég gæti ekki sinnt starfinu mínu öðruvísi. Þetta frumvarp á eftir að gera starf mitt betra. Takk.