149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

471. mál
[18:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla fyrst af öllu að taka undir þau orð sem voru viðhöfð hér í garð hv. þm. Birgis Ármannssonar fyrir aldeilis prýðilega framsöguræðu um þetta mál, mjög yfirgripsmikla og fína. Það mál sem við erum að fjalla um hér er ekki nýtt, það var komið á rekspöl á sínum tíma, rétt fyrir hrun, en í eftirmálum hrunsins voru öll svona áform um aukna aðstoð við þingið og þingmenn lögð á hilluna þar til núna að við erum að koma úr kafi og getum byrjað aftur á innleiðingu á því sem var fyrirhugað þá. Á Alþingi Íslendinga eru gerðar meiri breytingar á lagafrumvörpum en í ýmsum nágrannalöndum og umræða hér um mál er oft og tíðum töluvert miklu lengri en í nágrannaþingunum vegna þess að þar fá menn málin alveg þannig unnin í hendurnar að það verður í sjálfu sér kannski ekkert rosalega mikil umræða. Hún er oft og tíðum skömmtuð þannig að hún er ekki eins tímafrek og hjá okkur.

Síðan skiptir annað líka verulegu máli. Undanfarin ár hefur verið miklu meira um það en áður var að svokölluð þingmannamál eru lögð hér fram og fá í sjálfu sér meira brautargengi en var fyrir nokkrum árum þó að flestöll endi náttúrlega með því að ríkjandi stjórnvöld á hverjum tíma felli þau fyrir okkur. Það er allt annað mál, þau komast þó á dagskrá þingsins og komast oft til nefnda. Það er framför og við lifum það kannski einhvern tímann að fá eitthvert mál sem við brennum fyrir samþykkt í þinginu af ríkjandi meiri hluta á þeim tíma. Þetta þýðir bæði að við vinnum miklu meira við frumvörp en þingmenn margra annarra þjóða og að við leggjum fram frumkvæðismál, ef við viljum kalla þau það. Í þetta fer drjúgur tími og í þetta þarf töluvert mikla aðstoð, þ.e. það er ekki hrist fram úr erminni að semja svo vel sé lagafrumvarp og/eða þingsályktunartillögu ef maður hefur ekki til þess menntun. Þetta er ekki einfalt mál. Þess vegna ber að fagna því að samkvæmt þessu virðist sem þrír þingmenn muni í byrjun skipta með sér einum starfsmanni, gróft sagt. Þetta er öfugt hlutfall við t.d. England, neðri málstofu enska þingsins þar sem hver þingmaður hefur þrjá aðstoðarmenn. En þangað erum við ekkert að fara með þessu skrefi. Þetta sýnir kannski bara samanburðinn á því hvernig starfsaðstaðan er á hverjum stað fyrir sig.

Þegar þetta mál var unnið var pólitískt landslag í þinginu með dálítið öðrum hætti en er akkúrat núna. Kannski sáu menn það ekki fyrir, og það má horfa á að það sé ankannalegt að sjá, að tveggja manna þingflokkur yrði með þrjá aðstoðarmenn. Það er í dálítið stórri mótsögn við það sem stærri flokkar hafa á þinginu. En þetta er af ástæðum sem enginn réð við nema sá flokkur sem hér um ræðir og í sjálfu sér er ekkert við því að segja í þessari umferð. Auðvitað þarf í framtíðinni að horfa til þess arna, að ef mannaskipan þingflokka breytist á kjörtímabili sé með einhverjum hætti hægt að bregðast við. Það er reyndar líka annað sem skiptir kannski máli í því að þingflokkar taka breytingum á kjörtímabili. Hluti þeirrar fjárhæðar sem ríkið leggur til stjórnmálaflokka tekur mið af fjölda þingmanna sem viðkomandi flokkur hefur. Því er það út af fyrir sig umhugsunarefni ef fjögurra manna flokkur sem hefur fengið fjárupphæð út frá þeim fjölda, svo maður noti þann samanburð, verður síðan allt í einu tveggja þingmanna flokkur en flokkurinn heldur eftir sem áður þeim fjármunum sem honum höfðu verið ætlaðir miðað við að hafa fjóra þingmenn.

Þetta eru skref sem kannski var ekki hægt að sjá fyrir akkúrat þegar þetta var fram sett en verður örugglega tekið til greina þegar tímar líða fram og þegar við sjáum áhrifin af þessu máli, hvernig þetta kemur til með að æxlast hjá okkur.

Ég hef sagt það oft bæði í þessum ræðustól og forsætisnefnd þar sem ég á sæti að það er við okkur þingmenn að sakast ef almenningur, kjósendur okkar, hefur ekki rétta mynd af því sem við erum að gera. Það er við okkur að sakast því að þá erum við ekki að kynna starfið nógu vel fyrir þeim sem við erum að vinna fyrir. Við gerum þeim ekki nógu vel grein fyrir því að starfið fer ekki bara fram hér heldur líka í nefndum, líka á fundum, bæði með kjósendum og öðrum. Um þetta þurfum við að upplýsa og það er ekki við neinn annan að sakast en okkur. Ef almenningur og kjósendur okkar halda að þetta starf sé létt og löðurmannlegt og hægt að vinna með vinstri hendinni er bara við okkur að sakast vegna þess að við höfum ekki upplýst nógu vel um það í hverju þetta starf er fólgið.

Ég vona að þegar tímar líða fram verði það þannig að þingið muni á einhverjum tíma og með einhverjum hætti kynna betur fyrir almenningi, fyrir kjósendum, í hverju starf þingmannsins er fólgið. Ég held að það gæti verið mjög fróðlegt fyrir kjósendur að fá t.d. að slást í för með einum þingmanni, þá er ég að tala um t.d. með hjálp sjónvarpsmyndavéla, annaðhvort einn dag eða eina viku, og sjá hvað það er sem viðkomandi fæst við á þessum tíma. Það gæti þá gefið fólki innsýn í það umfang sem fylgir þessu starfi.

Þetta frumvarp hér þýðir í grunninn, eins og ég sagði áðan, að þrír þingmenn skipta með sér einum aðstoðarmanni. Það er skref í rétta átt og verður alveg örugglega til að hjálpa okkur að sinna þessu vandasama starfi betur, að við getum sem sagt komið fram með fleiri og betur unnin mál, hvert og eitt okkar, þannig að ég styð þetta mál heils hugar og vona að það fái greiða leið í gegnum þingið.