149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:52]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni og framsögumanni, Willum Þór Þórssyni, fyrir greinargóða framsögu með þessu máli. Í nefndinni fóru fram góðar umræður og málið er að mínu mati ágætlega unnið. Það eru lagðar fram breytingartillögur sem gerð var grein fyrir sem ég held að í sjálfu sér séu allar til þess fallnar að bæta frumvarpið.

Eins og fram kom í framsögu hv. þingmanns hef ég undirritað þetta nefndarálit með fyrirvara og vildi því gera örlitla grein fyrir af hverju ég geri það.

Markmið frumvarpsins og höfuðtilgangur er held ég nokkuð óumdeildur. Við viljum auka veg og virðingu íslenskunnar. Við viljum passa upp á að hún sé notuð og hún sé aðgengileg á rituðu formi fyrir þá sem geta og vilja lesa á íslensku. Það er því enginn ágreiningur um markmið þessa máls. Hins vegar má auðvitað velta fyrir sér hvaða leiðir eru skynsamlegastar í því að ná þessu markmiði og þar hef ég nokkrar efasemdir. Það að gæta íslenskunnar og gæta þess að hægt sé að nota hana held ég að sé ekki bara spurning um fjölda útgefinna bóka. Á síðustu árum og áratugum og sjálfsagt alla tíð hafa Íslendingar verið mjög bókaglaðir og þeir gefa út og hafa alltaf gert og gera enn gríðarlegan fjölda bóka. Það gera þeir auðvitað fyrst og fremst á íslensku. En auðvitað eru bækur á erlendum tungum hér líka og það er vel. Aðalatriðið er að á boðstólum séu góðar og gagnlegar bækur á íslensku. Þegar ég segi góðar og gagnlegar þá meina ég í mjög víðum skilningi. Þær geta auðvitað verið alls konar, um alls konar hluti og af alls konar tagi. Í mínum huga er aðalatriðið með bækur, hvort sem það eru hefðbundnar bækur eða bækur á rafrænu formi eða hvaða formi öðru sem kann að vera í framtíðinni, að menn lesi. Aðalatriðið er að menn lesi. Í því felst að það þarf að vera aðgengi að læsilegum bókun og í því samhengi held ég að það sé skynsamlegt að leita leiða til að gera bækur aðgengilegar.

Við höfum að vissu marki dreifikerfi fyrir bækur sem eru söfn, bókasöfn, fyrir a.m.k. hinar hefðbundnari bækur, og þar vil ég helst horfa til skólanna, alveg frá barnaskólum og upp úr. Bækurnar þurfa að vera aðgengilegar og það þarf að vera hvatning til að nota þær. Tilhneigingin hefur nú verið þannig, m.a. út af því að við erum alltaf í nútímanum og erum að horfa til framtíðar, að draga úr bókum í skólum. Það eru ekki endilega rafbækur sem koma í staðinn. Bókasöfn eiga svolítið undir högg að sækja og hafa ekki nógu góðan bókakost, ekki síst vegna þess að menn eru með einhverjum hætti að draga úr vægi þeirra. Þar held ég að sé stórt tækifæri til að koma bókum og lesefni á framfæri. Í því samhengi er náttúrlega gríðarlega mikilvægt að kennsluefni sé á íslensku, að námsbækur, fræðibækur og auðvitað skáldverk séu aðgengilegar og á íslensku. Það vantar talsvert mikið upp á að til sé aðgengilegt lesefni fyrir börn og nemendur.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta séu aðalatriðin og það sé ekki endilega mesta keppikeflið að tryggja að það séu gefnar út sem flestar bækur af sem flestum. Ég er ekki endilega viss um það. Nútíminn er svo skrýtinn að ég held að á mörgum heimilum, a.m.k. hjá fólki sem er, ég vil nú ekki segja roskið eins og ég, en komið nokkuð við aldur, séu vandamálin helst tengd því að það á allt of margar bækur. Það eru fullir kjallarar af bókum, góðum bókum, frábæru lesefni sem enginn lítur við. Af því að við erum jólabókaþjóð þá höfum við komið okkur upp þeim plagsið að bækur úreldist eiginlega um leið og jólavertíðin er búin. Menn lesa verkin af ánægju og svo á einhvern hátt eru bækurnar úreltar. Það er eins og ekki megi gefa gamlar bækur í jólagjöf eða góðar bækur í jólagjöf, þetta úreldist. Það sem ég er að reyna að koma orðum að og gengur kannski brösuglega er að ég held að það sé miklu meira atriði að við gerum bókina eða ritmálið, lesmálið, gildandi og aðgengilegt og ég er ekki alveg viss um að þetta sé besta leiðin.

Ég hefði haldið að ein leið væri að styrkja bókasöfn, styrkja þau til þess að þau geti keypt bækur að sjálfsögðu og keypt ritverk og keypt aðgang að rafbókum fyrir nemendur og það séu gefnar út góðar kennslubækur í öllum fögum. Maður veit að í menntaskólunum t.d. er verið að kenna alls konar náttúrufög meira og minna á erlendum tungumálum sem nemarnir eiga erfitt með að skilja. Ég held að það væri til bóta ef menn gætu lesið slíkar bækur og fræði á íslensku, fræðibækur auðvitað og skáldverk. Þá er spurning hvort heppilegra væri að við kæmum okkur frekar upp kerfi sem gæti byggst á einhvers konar samkeppnissjóðum þar sem menn sækja um og segja: Ég er með hugmynd að bók af þessu og þessu tagi og sæki um styrk til að gefa hana út eða koma henni út eða semja hana, frekar en að hafa styrkinn í því fyrirkomulagi að hann sé svona almennur. Ég er alveg sammála því markmiði sem að er stefnt. En þó að færð hafi verið ýmis góð rök fyrir þeirri leið sem hér er farin er ég ekki alveg sannfærður um að hún sé sú besta.

Á hinn bóginn þá er frumvarpið þannig úr garði gert að ef það verður að lögum þá verða lögin tekin til endurskoðunar að liðnum fáum árum og þá ætla menn að reyna að meta árangurinn af þessu. Þá held ég að það hljóti að vera a.m.k. tvennt sem þurfi að hafa í huga, fyrir utan að mæla fjölda titla á íslensku sem hafa komið út og hvort þeim hafi þá fjölgað frá því að þessi lög tóku gildi. Menn verða líka að horfa dálítið aftur í tímann til að reyna að átta sig á því hvort þetta hafi haft einhverjar breytingar í för með sér, en aðalatriðið hlýtur þó að vera að lestur bóka hafi aukist. Aukist ekki lestur bóka við þetta átak þá hefur það ekki tekist eins og til er ætlast. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því og er ekkert að gera lítið úr því að allir hafa góðan ásetning í þessum málum og sjálfsagt eru mínar hugmyndir ekkert endilega miklu betri en þær sem koma fram í frumvarpinu. Aðalatriðið og um það held ég að við séum öll sammála, hvernig sem við viljum nálgast málið, er það að við getum aukið lestur okkar allra og allra sem vilja og geta lesið íslensku á góðum bókum, góðum verkum á íslenskri tungu. Því markmiði er ég hjartanlega sammála en ég hef efasemdir um leiðina. Þess vegna skrifa ég undir frumvarpið með fyrirvara og þar eiginlega við situr.

Það liggur nánast í hlutarins eðli að frumvarpið mun væntanlega ná fram að ganga. Ég hef tekið þá afstöðu að ég mun að sjálfsögðu ekki greiða atkvæði gegn því en ég reikna frekar með að sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Ég vil að endingu aftur segja að málið var ágætlega unnið í nefndinni og í góðu samkomulagi og menn voru ekki mjög heiftúðugir, þó að þeir væru kannski ekki alveg sammála, enda alls engin ástæða til, og málið hefur batnað í meðförum nefndarinnar og ég tók auðvitað þátt í starfi nefndarinnar við að stuðla að því og þess vegna er ég á nefndarálitinu.