149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[19:34]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er fyrst og fremst kominn hér í ræðustól til að lýsa því að ég styð þetta frumvarp. Ég hef tekið þátt í vinnslu þess í allsherjar- og menntamálanefnd og tel að það sé ómaksins vert að láta á þetta reyna úr því að ekki hafðist það sem ég tek undir með hv. þm. Snæbirni Brynjarssyni að hefði verið besta leiðin, þ.e. afnám virðisaukaskatts á bækur. Sú leið hefði bæði gefið til kynna að við sem þjóð, rétt eins og ýmsar aðrar þjóðir, lítum á bókmenntir okkar og bókmenningu okkar sem eitthvað sérstakt og tungu okkar og bókmenningu sem eitthvað sérstakt sem við viljum gera eitthvað sérstakt fyrir og viljum varðveita.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni í því sem hann sagði áðan um nauðsyn þess að við hugum að kjörum listamanna sem teknir eru að reskjast. Oft er þetta fólk sem ekki hefur átt þess kost að greiða í lífeyrissjóði, það hefur ekki verið í öðrum félögum en sínum listamannafélögum og hefur ekki verið með lífeyrissjóðskerfi. Það hefur verið í harki alla sína listamannstíð og hefur einfaldlega ekki getað lagt mikið fyrir og er því alveg í sérstakri aðstöðu og býr oft við mjög erfið kjör út af því, jafnvel þó að þjóðin standi í þakkarskuld við þetta fólk fyrir það sem það hefur fært þjóðinni.

En ég styð þetta frumvarp. Ef þetta reynist nú allt saman ómögulegt og ef þessi leið reynist flókin og erfið úrlausnar og leiðir ekki til neins, þá er ákvæði sem gerir ráðherra skylt fyrir lok árs 2022 að láta gera úttekt á árangri þess stuðnings sem felst í frumvarpinu. Lögin gilda til ársloka 2023.

Hvað er bók? Það má kannski aðeins velta því fyrir sér af hverju við erum að þessu á annað borð og hvað við erum að fást við. Það er að vísu að finna ágæta skilgreiningu á bók í frumvarpinu og ég ætla ekki að fara að lesa hana upp. Hún er miklu betri en ég vísa til hennar til þeirra sem vilja fá lögformlega góða skilgreiningu á bók. Ég er meira að velta þessu fyrir mér sjálfur í þessum ræðustól.

Eins og ég gat um áðan er bók kannski ekki annað en umbúðir utan um hugmyndir og hugsun. Í bókum eru alla jafna bara orð og orð eru ekki myndir, heldur eru orð ávísanir á myndir. Við lesum orð og þá þýðum við orðin, við röðum stöfunum saman í orð og orðin mynda myndir og hugmyndir, stemningar og hughrif í heilabúinu á okkur. Þegar við lesum um líf fólks, líf og örlög fólks, alls konar líf, jafnvel einkennilegt sálarlíf eða bara mjög venjulegt sálarlíf, eða bara bæði venjulegt og óvenjulegt sálarlíf í senn og við lesum um það hvernig líf og örlög fólks getur vafist saman á alls konar hátt, þá þroskast hugsun okkar á ákveðinn hátt sem hún gerir ekki með annarri listnotkun, að þeirri listnotkun algjörlega ólastaðri.

Það er margt sem kvikmyndir hafa fram yfir bókmenntir og það er margt sem tónlist hefur fram yfir bókmenntir og þannig má áfram telja. En bókmenntir hafa þetta sérstaka, að ef vel tekst til og jafnvel þarf ekkert endilega takast neitt sérstaklega vel til, hafa bókmenntir það til að bera að þær efla gáfu okkar til innlifunar í örlög annars fólks. Þær efla þannig samlíðan okkar gagnvart öðru fólki og þær efla líka gáfu okkar til óhlutbundinnar hugsunar, þ.e. abstrakt hugsunar, vegna þess að við erum einmitt að þýða bókstafi yfir í myndir og hugmyndir. Við sjáum ekki hlutinn beint, heldur þurfum við að þýða hann yfir í eitthvað annað og það getur þroskað hugsun okkar. Þannig getað bókmenntir þroskað fólk á einhvern hátt sem aðrar listgreinar eða önnur mannleg viðleitni gerir síður. Með þeirri viðleitni sem felst í þessu frumvarpi erum við ekki bara að efla íslenska tungu og ekki bara að reyna að efla íslenskan bókamarkað, við erum að reyna að efla andlegt líf í landinu og reyna að stuðla að því að það verði vandaðra og betra. Þá er það náttúrlega lokamarkmiðið að við verðum betri hvert við annað.

Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson vék aðeins að því áðan — við áttum orðastað um vondar bækur og góðar og vorum sammála um að við þyrftum stundum að lesa vondar bækur til að geta komist að því að góðar bækur séu góðar bækur. En það er samt ekki alveg það sem þetta snýst um, heldur kannski ekki síður hitt að það þurfa að vera til vondar bækur líka og það þurfa að vera til sæmilegar bækur og það þurfa að vera til frekar óspennandi bækur og það þurfa að vera til hversdagslegar bækur til þess að snilldarverkin geti risið og dafnað. Það er ekki bara í samanburðinum, heldur er það vegna þess að góðar bækur verða til af vondum bókum. Það eru kannski skrifaðar 100 mjög vondar bækur um eitthvert efni og þá les einhver höfundur, sem er kannski hugkvæmur og snjall, allar þessar bækur og honum dettur í hug einhver leið sem leiðir til góðrar bókar, en forsendan fyrir snilldarverkinu eru allar vondu bækurnar, eða kannski öllu heldur allar miðlungsbækurnar. Það þurfa að vera til miðlungsverk. Við þurfum á meðalmennskunni að halda. Það vill oft gleymast, vegna þess að snilldin verður aldrei til nema meðalmennskan sé líka til staðar, lággróðrinum sé til staðar.

Til þess að meðalmennskan sé til staðar og þetta allt saman þarf að vera til sá akur sem ég var að tala um áðan í andsvari mínu við hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson. Þá þarf að vera til öflugur bókmenntavettvangur og sá vettvangur held ég að þróist ekki nema atvinnumennska sé til staðar.

Hv. þm. Snæbjörn Brynjarsson vék að því áðan að það þyrftu að vera til góðir ritstjórar. Það þekkjum við báðir af góðri reynslu okkar af starfi slíks fólks. En góðir ritstjórar geta því aðeins lifað og starfað að þeir geti starfað á forlögum og þeir geti lifað af launum sínum og það sé til bókmenntasamfélag sem þeir geta dafnað í.

Það sem við erum að reyna að gera í þessu frumvarpi eins og ég skil það, er að við erum að reyna að efla þetta bókmenntasamfélag, efla þennan bókmenntavettvang í þeirri trú að á því hagnist allir, ekki bara bókaforlögin, ekki bara eigendur bókaforlaganna, ekki bara starfsfólk bókaforlaganna, ekki bara bóksalarnir, og ekki bara lesendur, sem fá vonandi ódýrari bækur, heldur líka rithöfundarnir. Bækur verða ekki til í tómarúmi. Bækur spretta ekki bara allt í einu úr hausnum á okkur og svo setjum við þær bara á markað. Það er ákveðin þekking sem þarf að vera að baki því bæði að búa til bók sem hlut, að setja saman skáldverk sem heild og einingu og að koma því á markað. Það útheimtir líka ákveðna þekkingu og færni sem verður til í áranna rás hjá bókaforlögunum. Við erum að reyna að stuðla að því að sú þekking og færni sé áfram til staðar.

Ég skil vel áhyggjur hv. þm. Snæbjörns Brynjarssonar sem hafa líka verið viðraðar af talsmönnum rithöfunda og komu fram á fundum nefndarinnar með rithöfundum þegar fulltrúar þeirra komu á okkar fund, að tekjur rithöfunda kunni að lækka við það að verð á bókum lækki, þ.e. að heildsöluverð á bókum lækki vegna þess að í samningum er kveðið á um að rithöfundar fái í sinn hlut tiltekið hlutfall af verði bóka. Þetta eru skiljanlegar áhyggjur og þetta er áhyggjuefni, en von okkar er sú að söluaukning á bókum verði til þess að rithöfundar fái ekki bara það sama í sinn hlut heldur fái þeir enn meira í sinn hlut fyrir vikið. En það verður reynslan að leiða í ljós, eins og raunar allt annað varðandi þetta frumvarp.

Bækur eru sögur og ljóð. Bókmenning er, eins hv. þm. Snæbjörn Brynjarsson vék að áðan, ein af grunnstoðum íslenskrar sjálfsmyndar. Íslendingasögurnar og sögur og ljóð sem samin voru hér í aldanna rás, voru meginröksemd Íslendinga fyrir því að Íslendingar gætu yfirleitt talist vera sérstök þjóð, sem Danir, félagar okkar í ríkjasambandinu, áttu oft erfitt með að skilja.

Þannig lét t.d. mjög framsækinn hugsuður, sem oft tók svari lítilmagnans, Georg Brandes, hafa eftir sér þegar Íslendingar vildu fá sérstakan þjóðfána, vildu fá sérstakan siglingafána: Vilja ekki íbúar Amager líka fá sérstakan fána fyrir sig? Honum fannst þetta svo fráleit hugmynd. Hann skildi það ekki að þetta fólk þarna úti í ballarhafi liti á sig sem einhverja sérstaka þjóð. Og kannski var það líka einkennilegt, furðuleg meinloka. En hún grundvallaðist á því að hafa sitt eigið tungumál og hafa sinn eigin menningararf sem fólst í sögum og ljóðum. Þetta var réttlæting Íslendinga fyrir fullveldi og fyrir sjálfstæði og fyrir því að grundvalla hér sérstakt ríki.

Bækur eru sérstakar. Það gegnir sérstöku máli um bókmenningu okkar. Það er ómaksins vert að reyna að efla rekstrargrundvöll íslenskra bókmennta og stuðla að því að þær geti haldið áfram að koma út um ókomna tíð. Síðan mun renna upp sá tími fyrr eða síðar að bækur eða bókmenntir munu finna sér annan farveg, aðrar umbúðir en bókina. En það er ekki alveg komið að því en við þurfum kannski að greiða fyrir því að þau umskipti verði sem sársaukaminnst.