149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[19:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast um. Þegar um er að ræða styrki til atvinnugreina vakna upp ýmiss konar spurningar. Fyrst stóð til að fara þá leið að afnema virðisaukaskatt á bókum en það endaði svo með því frumvarpi sem hér er fram komið um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Ég viðurkenni reyndar að ég er hlynnt því.

Ég hef þá skoðun, virðulegur forseti, að mjög mikilvægt sé að skattkerfið sé einfalt og skýrt. Í dag erum við með tvö þrep og svo eru líka þær undanþágur að einhver sé í virðisaukaskattskerfinu með núll-útskatt og geti þar af leiðandi innskattað allt, sem er auðvitað verulega mikil meðgjöf til viðkomandi aðila, og ég verð að viðurkenna að mér hugnast þessi leið jafnvel betur. Hér horfum við líka á aðrar fyrirmyndir sem við þekkjum eins og til að mynda úr kvikmyndaiðnaðinum.

Almennt vil ég þó segja að mér hugnast betur almennar aðgerðir er lúta að því að ýta undir atvinnulíf og nýsköpun í landinu, eins og lækkun tryggingagjalds sem við samþykktum hér í dag. Slíkt skiptir öll fyrirtæki máli, hvort sem þau eru í bókaútgáfu eða einhverju allt öðru.

Mér finnst mjög gott að sjá að mikil samstaða virðist ríkja um málið. Fólk úr öllum flokkum ritar undir nefndarálitið og það er alltaf gott þegar við náum sátt um hlutina. Við búum hér á örlitlu málsvæði og það er mikið verkefni að halda íslenskunni lifandi. Við þurfum að huga að því og ég er algerlega sannfærð um að útgáfa bóka á íslensku skiptir verulegu máli í því. Ég vil þá sérstaklega nefna barna- og unglingabækur sem hafa verið töluvert í umræðunni og það er alveg ljóst að þar skortir enn frekar á. Ég hef heyrt marga ræða um mikilvægi fyrirmynda, að við foreldrarnir lesum og kennum börnunum okkar það. Ég skal viðurkenna að það gengur ekkert rosalega vel á mínu heimili. Þrátt fyrir að ég taki mér gjarnan bók í hönd þarf ég iðulega að pína syni mína til að gera slíkt hið sama. Þeir gera það eingöngu vegna þess að þeir eru skikkaðir til þess af skólayfirvöldum eða af móður sinni. Vonandi breytist það með tíð og tíma, vonandi sjá þeir ljósið í því hve skemmtilegt það getur verið að setjast yfir góða bók. Hér áttu sér stað ágætisumræður um góðar bækur, sæmilegar bækur, skítlélegar bækur og alls konar bækur; það er auðvitað smekksatriði eins og svo margt annað. Mér kann að finnast bók góð sem öðrum finnst kannski ekkert sérstaklega góð. Það er því ekki hægt að einblína á stuðning við útgáfu á góðum bókum því að það er smekksatriði.

Ég tek undir það sem kemur fram í nefndarálitinu, að ég held að það sé mjög mikilvægt að fylgjast með því hvernig tekst til. Það eru alltaf einhverjir pyttir sem hægt er að detta í þegar verið er að búa til kerfi utan um styrki. Ég held því að það sé gríðarlega mikilvægt að vel sé haldið utan um það og fylgst með áhrifunum sem það hefur.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram hver staða íslenskrar bókaútgáfu er, að 40% samdráttur hafi orðið á tímabilinu frá 2008–2017. Ekki ætla ég að rengja þær tölur en mig langar að benda á það sem ég hef heyrt í umræðunni, þ.e. að auðvitað hefur margt breyst á þessum tíma. Til eru heilu bókaflokkarnir sem kannski er ekki vænlegt að gefa út lengur, til að mynda kortabækur, leiðarvísar og annað, ferðabækur — við notum bara símann okkar til að fletta slíku upp. Ég nefni líka orðabækur. Flestir fara bara á netið eða í símann sinn til að fletta slíkum atriðum upp. Áður þurftum við að kaupa orðabækur til að stunda nám í framhaldsskóla og í háskóla. Ég held að enginn geri það nú orðið. Mér finnst ástæða til að hafa það í huga þegar við tölum um þessa dramatísku tölu, þegar við tölum um 40% samdrátt. Það kann að hafa einhver áhrif á þetta.

Þó að ég hafi sagt að ég ætti kannski svolítið erfitt með þetta mál mun ég að sjálfsögðu styðja það. Ég veit að markmiðið er gott og við getum öll tekið undir það. Ég vona að þær aðgerðir sem hér er verið að leggja til nái þeim árangri sem til er ætlast. Mig langar að nefna það — ég veit ekki hversu mikið er um að verið sé að gefa út íslenskar bækur annars staðar — að hér er talað um það þetta geti verið í öðrum löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í Færeyjum. Þá spyr ég: Af hverju ekki á Grænlandi líka? Það er nágrannaland okkar, þannig að ég velti því bara upp. Ég veit ekki hversu mikið er um að íslenskar bækur séu gefnar út í þessum löndum en ef markaður er til staðar fyrir þær þá er það hið besta mál.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar. Í ljósi þeirrar miklu samstöðu sem er um málið mun ég styðja það. Ég vona að það skili þeim árangri sem vænst er en ítreka jafnframt að mikilvægt er að halda vel utan um þetta og fylgjast vel með því hvaða árangri við náum fram í þessum efnum.