149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[19:58]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég átta mig á því að mismunandi skoðanir eru á þessu. En það er eitt að taka vissar atvinnugreinar eða einhverja listsköpun út úr virðisaukaskattskerfinu, þar af leiðandi er ekki útskattur og ekki hægt að innheimta innskatt af því, og annað að fá að vera innan virðisaukaskattskerfisins í 0%. Það er það sem ég var að segja, það er alveg gríðarlega mikil meðgjöf. Það býður alltaf þeirri hættu heim að fyrirtæki sem eru innan virðisaukaskattskerfisins selja eitthvað í lægra þrepinu og í hærra þrepinu og í núll þrepinu. Hvernig á að gera þetta upp og hvað flokkast undir innskatt út frá hinni skattprósentunni?

Ég get nefnt dæmi. Ég stofnaði fyrirtæki og gaf út barnabækur, litlar þrautabækur. Ákvað svo að gefa út skipulagsdagatal. Mér hefði betur hugkvæmst að kalla það bók og finna einhverja lausn á því að það væri bók, því að þá hefði það farið í lægra skattþrepið. Innskatturinn er samt alveg sá sami. Og þegar farið er að gera upp svona fyrirtæki er alltaf komið ákveðið flækjustig. Það myndast bákn í kringum það, eftirlit og skattkerfið. Á þetta var til að mynda bent sérstaklega í ferðaþjónustunni á sínum tíma þegar þar var flókið að vera bæði í lægra og hærra þrepi.

Við glímum við þetta vandamál víða. Hugmynd hv. þingmanns, sem var vissulega fyrsta hugmyndin, er svo sem framkvæmanleg. En engu að síður er það mín skoðun að mér finnst skýrara hafa skattkerfið eins einfalt og hægt er og við séum ekki að auka flækjustig í því. Þar af leiðandi styð ég frekar þessa aðgerð hér, sem efnahags- og viðskiptaráðuneytið komst að í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og starfshóp sem vann á þeirra vegum, að fara þessa leið sem mælt er fyrir í frumvarpinu.