149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[20:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér í kvöld hafa orðið býsna skemmtilegar umræður um frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, eins og raunar oft vill verða í þessum þingsal þegar verið er að fjalla um þingmál sem snúast á einhvern hátt sérstaklega um íslenska tungu. Þá finnst okkur oft ansi gaman að lifa og alveg sérstaklega gaman að tala og nota blæbrigði tungumálsins til þess að tjá skoðanir okkar. Og svo þegar við bætist að við erum ekki bara að fjalla um tungumálið okkar, heldur líka bækur á sama tíma, þá eru jólin að koma, held ég að hægt sé að segja alveg fullum fetum.

Ég kem hér upp til þess fyrst og fremst að lýsa stuðningi mínum við þetta mál og langar í örfáum orðum að nefna nokkur atriði sem ég tel að skipti máli. Aðeins hefur verið komið inn á það í umræðunni að það þurfi að vera til vondar bækur svo við þekkjum góðu bækurnar frá þeim vondu. Jú, jú, það má alveg færa rök fyrir því. En ég held samt að það sé mikilvægast að til séu alls konar bækur fyrir alls konar lesendur. Ég held t.d. að það sé mikilvægt að til séu bækur sem níu ára krökkum, eða alla vega sumum níu ára krökkum finnast frábærar, en fullorðnu fólki finnast kannski ekkert svo spes.

Ég held nefnilega að umræðan og rökræðan um mat eða smekk á bók sé hreinlega góð í sjálfri sér fyrir læsið og tungumálið og þá ekki síst hjá ungum lesendum sem eru að prófa sig áfram í hvoru tveggja, þ.e. auka læsi og æfa tungumálið, en geta notað þetta í leiðinni til að æfa rökræðuna. Þess vegna held ég hreinlega að það sé mikilvægt að fullorðið fólk lesi barna- og unglingabækur og ræði þær bækur við unga lesendur, ekki síður en að ég held að það sé mikilvægt fyrir fullorðið fólk að lesa bækur sem eru sérstaklega skrifaðar fyrir fullorðinsaldurshópinn og að eiga rökræður við aðra fullorðna um þær bækur því að eins og fram kemur í þessu frumvarpi er helsta markmið þess að styðja við og efla útgáfu bóka á íslensku í því skyni að vernda íslenskt mál og með því að efla læsi.

Ég er nokkuð viss um að þetta er ekki síðasta frumvarpið sem rætt verður hér á Alþingi sem varðar íslensku og varðveislu tungumálsins, eða mögulega framþróun tungumálsins. Og ég er líka nokkuð viss um að þetta verður ekki síðasta frumvarpið sem fjalla mun um bækur eða stöðu þeirra á einhvern hátt. Við erum á þeim stað að tæknibreytingar geta breytt stöðu bóka enn meira en það sem verið hefur á síðustu árum. Ég er detta í að verða miðaldra, en bara frá því að ég var unglingur hafa orðið ansi miklar breytingar á því hvernig við njótum bókmennta. En það er ekki þar með sagt að við hættum að njóta bókmennta þótt við gerum það á einhvern annan hátt.

En ég bind sem sagt vonir við og hef raunar trú á því máli sem við höfum nú tekið til umfjöllunar og fjallað um í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og gert ýmsar betrumbætur á, alla vega að því er við teljum, í samræmi við það sem gestir hafa lagt til sem komið hafa á fund nefndarinnar. Ég hef þá trú að það sé gott innlegg í að tryggja eða stuðla að fjölbreyttri bókaflóru fyrir fjölbreytta bókaorma þessa lands og vera þannig innlegg í að vernda og efla tungumálið okkar og læsið á sama tíma. Mér finnst gaman hve mikill einhugur hefur verið um þetta mál. Þó að vissulega hafi verið blæbrigði á því hvernig fólk vill nálgast það erum við, að því er mér heyrist, algerlega sammála um meginmarkmiðið, sem er að hafa mikið af alls konar bókum. Ég ætla þess vegna að vera mjög bjartsýn á að við gerum þetta frumvarp að lögum á morgun.