Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi sem er stjórnarfrumvarp frá hæstv. dómsmálaráðherra — og ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarpið sem er að finna á þskj. 726 — er lagt til að horfið verði varanlega frá því að uppreist æru verði veitt með stjórnvaldsákvörðun og jafnframt að horfið verði frá því að gert sé að skilyrði fyrir starfi eða embætti að viðkomandi hafi óflekkað mannorð eða hafi ekki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja megi svívirðilegt að almenningsáliti. Þannig verði horfið frá því að vísa til laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, um óflekkað mannorð og í staðinn verði þau hæfisskilyrði sem gerð eru til ýmissa starfsstétta eða embætta skilgreind sérstaklega í viðeigandi lagabálkum. Áfram verður þó óflekkað mannorð skilgreint í lögum um kosningar til Alþingis, samanber 34. gr. stjórnarskrárinnar. Kjörgengisskilyrði í lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna verði hins vegar rýmkuð og kveðið á um að eingöngu þeir sem hlotið hafa óskilorðsbundinn fangelsisdóm teljist hafa flekkað mannorð.

Nefndin fékk til sín fjölda gesta til að fjalla um þetta og bárust umsagnir frá Afstöðu, félagi fanga á Íslandi, Alþýðusamband Íslands, Fangelsismálastofnun ríkisins, Fjármálaeftirlitinu, laganefnd Lögmannafélags Íslands og Persónuvernd.

Í umfjöllun nefndarinnar var rætt m.a. nokkuð um skilgreiningar á hugtökum í greinargerð frumvarpsins, stjórnarskrárvarin réttindi og sérstaklega var fjallað um hæfisskilyrði sem gerð eru til lögmanna og aðkomu Lögmannafélags Íslands að því ferli, auk þess sem fjallað var um hæfisskilyrði sem gerð eru til framkvæmdastjóra og stjórnarmanna ýmissa starfsstétta sem heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins.

Við umfjöllun málsins var rætt hvort tilefni væri til að endurskoða hæfisskilyrði fleiri starfsstétta, svo sem lögráðamanna, kennara og heilbrigðisstarfsfólks, auk þess sem fram færi endurskoðun á kjörgengi í nefndir og ráð, svo sem til barnaverndarnefnda. Meiri hlutinn beinir því sérstaklega til velferðarráðuneytis að endurskoða hvort setja eigi sérstök skilyrði fyrir kjörgengi til barnaverndarnefnda þar sem frumvarpið leggur til töluverða rýmkun á kjörgengnisskilyrðum laga um kosningar til sveitarstjórna og samkvæmt 11. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, fer um kjörgengi til barnaverndarnefnda eftir sömu reglum og um kjörgengi til sveitarstjórna. Meiri hlutinn tekur fram að frumvarp þetta er afmarkað við það að afnema uppreist æru úr lögum, svo og skilyrði um óflekkað mannorð. Meiri hlutinn telur hins vegar fulla ástæðu til að beina því til allra ráðuneyta að haldið verði áfram að endurskoða hæfisskilyrði starfsstétta sem heyra undir málefnasvið þeirra, en þó er lögð sérstök áhersla á að endurskoðun hæfisskilyrða þeirra sem starfa með börnum verði sett í forgang. Jafnframt ítrekar meiri hlutinn mikilvægi þess að við slíka endurskoðun eigi ráðuneytin samráð við fagstéttirnar sem eiga hlut að máli og hafi hliðsjón af atvinnuréttindum og meðalhófi.

Að lokum leggur meiri hlutinn til minni háttar orðalagsbreytingar.

Meiri hlutinn leggur sem sagt til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali og ég ætla ekki að lesa upp hér.

Guðmundur Ingi Kristjánsson var áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er samþykkur áliti þessu en undir álitið rita Páll Magnússon, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Willum Þór Þórsson.