149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[10:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fæ ekki betur séð en að hæstv. ríkisstjórn eigi í miklum erfiðleikum með að fara eftir lögum um opinber fjármál og það frumvarp sem nú á að greiða atkvæði um er skýrt dæmi um það. Samspilið á milli varasjóðs og fjáraukalaga er orðið allt öðruvísi en hugsað var með lögum um opinber fjármál. Hér er verið að samþykkja, ef stjórnarmeirihlutinn ákveður slíkt, atriði sem ekki eru tímabundin, ekki ófyrirséð og ekki óhjákvæmileg og hefði átt að gera ráð fyrir í áætlunum og í fjárlögum fyrir árið 2018.

Svo vantar hér inn atriði sem sannarlega eru ófyrirséð og óhjákvæmileg sem bregðast ætti við í fjáraukalögum, eins og stórkostleg íbúafjölgun á Suðurnesjum og vandi heilbrigðisstofnunarinnar þar til að þjóna íbúum Suðurnesja. (Forseti hringir.) Við því er ekki brugðist, en alls konar öðrum málum sem hefðu átt að vera inni í áætlanagerð.