149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[10:37]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við teljum lög til fjárauka ganga gegn lögum um opinber fjármál, 26. gr. laganna. Við teljum jafnframt að hvorki hafi verið farið með fullnægjandi hætti yfir né sannreynt hvort og hvaða liðir væru þá í takt við ákvæði laganna um að hér væri sannarlega um að ræða óvænta, óhjákvæmilega, ófyrirsjáanlega útgjaldaliði sem ekki hefði verið hægt að bregðast við með öðrum hætti.

Það er augljóst að inni í fjáraukanum eru liðir sem eru nákvæmlega þannig. Þeir eru hvorki tímabundnir, ófyrirsjáanlegir, óvæntir né þannig að ekki hefði verið hægt að bregðast við þeim með öðrum hætti. Við munum því styðja breytingartillögu Pírata á fjáraukalögum og munum greiða atkvæði gegn fjáraukanum.