149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[10:38]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum nú atkvæði um fjáraukalagafrumvarp 2018. Mér finnst mikilvægt að hér komi fram að frávik útgjalda sem hlutfall af fjárlögum er lágt í sögulegu samhengi. Það eitt og sér er vísbending um að við erum á réttri leið í því að draga úr notkun fjárauka, sem var upphaflega markmiðið með lögum um opinber fjármál. En á sama tíma er mikilvægt að við nýtum frekar verkfæri laganna, ég á við millifærslur málaflokka, notkun varasjóða málaflokkanna og almenna varasjóðinn, og aukum þannig skilvirkni fjárstýringar og náum því markmiði að draga úr umfangi fjárauka. Um það er almenn samstaða í hv. fjárlaganefnd og kom glöggt fram við 2. umr. Einnig er mikilvægt að klára reglugerð í samræmi við 67. gr. laganna, m.a. um skilyrði og notkun almenna varasjóðsins.