149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

440. mál
[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þessu frumvarpi eru lagðar til mikilvægar breytingar í átt til aukins gagnsæis þegar kemur að fjármálum stjórnmálaflokkanna, m.a. með því að birta fullan ársreikning opinberlega, sem er nýmæli. Sömuleiðis er kveðið á um að stjórnmálasamtökum, kjörnum fulltrúum og frambjóðendum verði óheimilt að taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga án þess að nöfn þeirra komi fram, sem er fyrsta skrefið í baráttu stjórnmálahreyfinganna gegn nafnlausum áróðri í tengslum við kosningar og stjórnmálabaráttu.

Jafnframt er kveðið á um að birta nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi, sem einnig er nýmæli. Þá er ákveðið að leggja til ákveðið grunnframlag til allra stjórnmálaflokka sem ná sæti á Alþingi til að jafna aðstöðumun lítilla og stórra flokka.

Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þá góðu vinnu sem farið hefur fram í kringum þetta frumvarp og þá samstöðu sem skapast hefur um þessar breytingar, sem ég vona að verði til þess að styrkja í senn starfsemi lýðræðislegra stjórnmálahreyfinga og bæta umgjörð um starfsemi þeirra og auka gagnsæi, sem er alveg gríðarlega mikilvægt markmið.