149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[10:54]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við styðjum og styrkjum bókmenntir af því að þær hafa gildi í sjálfu sér. Við styrkjum bókmenntir vegna þess að í þeim sjáum við okkur sjálf. Við sjáum íslenskt mannlíf í allri sinni fjölbreytni, sinni fegurð og hryllingi. Við styrkjum bókmenntir vegna þess að af einni lítilli bók getur vaxið svo margt annað sem er gott og jákvætt. Þannig áttu íslenskar bókmenntir mikinn þátt í að reisa við orðspor landsins eftir hrun.

Herra forseti. Bækur verða ekki til af sjálfu sér. Bækur eru ekki fögur blóm sem vaxa sisvona af sjálfu sér, þær þurfa heilbrigðan bókamarkað og heilbrigt rekstrarumhverfi. Þetta frumvarp stuðlar vonandi að því að svo verði.