149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[10:55]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum nú atkvæði um stuðning við bókaútgáfu á íslensku. Við metum bókina mikils, okkur þykir vænt um hana. Það kom skemmtilega fram í umræðu um málið. En tilefnið hér hefur víðtækari skírskotun í tungumál okkar og menningu en sá sértæki stuðningur sem í því felst að styðja við bókaútgáfu. Bókaútgáfa er þó ein af mikilvægustu stoðum íslenskrar menningar og gildi hennar fyrir verndun og stuðning við íslenska tungu og eflingu læsis er óumdeilt. Með samþykkt þessa frumvarps komum við á fót stuðningskerfi fyrir bókaútgefendur með endurgreiðslu 25% kostnaðar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þessi aðgerð er hluti af aðgerðaáætlun hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um að efla og þróa íslenska tungu, efla læsi og tryggja það að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.

Ég þakka samstöðuna í hv. allsherjar- og menntamálanefnd um þessa aðgerð.