149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[10:57]
Horfa

Snæbjörn Brynjarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er rithöfundur og meðlimur í Rithöfundasambandi Íslands. Mér var lofað afnámi á virðisaukaskatti af bókum, alveg eins og á gullöld íslenskrar tungu og bókmennta þegar kálfskinn, blek og verktakavinnan var öll án virðisaukaskatts. Þessu var mér lofað og enn hefur ekki verið staðið við það. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem ég er svikinn um kosningaloforð en mér finnst skrýtið að við skulum fara aðra leið en flestar aðrar þjóðir í Vestur-Evrópu.

Ég trúi því ekki að það sé svo rosalega flókið að afnema þennan virðisaukaskatt þegar aðrar þjóðir hafa gert það. Það var bara einn flokkur sem lagðist gegn því. Hann vinnur hér mikinn pólitískan sigur. Það er í rauninni minni hluti fyrir þeirri leið sem hér á að fara en sú leið er farin af því að einn flokkur á þessu þingi virðist alltaf vinna og samstarfsflokkarnir virðast ekki hafa kjark til að standa uppi í hárinu á honum og kerfinu sem hann hefur byggt upp.

Ég ætla að greiða atkvæði gegn þessu.