149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[10:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sú leið sem við greiðum hér atkvæði um er leið sem búið er að liggja yfir og skoða og er metin árangursríkari leið til að styðja við íslenska bókaútgáfu en breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Við þurfum að styðja við íslenska bókaútgáfu, þar hefur orðið alveg gríðarlegur samdráttur á undanförnum tíu árum, um 40%. Það er ábyrgðarhluti Alþingis að bregðast við varðandi grein sem er undirstöðuatvinnugrein fyrir eflingu íslenskrar tungu, og grípa til aðgerða með einhverjum hætti.

Ég tel að þessi aðgerð eigi eftir að skipta sköpum fyrir innlenda bókaútgáfu. Íslensk bókaútgáfa, að gefa út bækur á íslensku, er undirstöðuatriði til að við höldum áfram að hugsa á íslensku og tala á íslensku um öll svið samfélagsins, fyrir utan hvað skáldskapurinn sjálfur er mikilvægur í sjálfum sér.

Svo vil ég hrósa allsherjar- og menntamálanefnd fyrir að koma Tinna, Ástríki og Lukku-Láka inn í nefndarálit. Ég man ekki eftir að hafa séð þá félaga í nefndaráliti áður og finnst það til marks um mjög skapandi notkun (Forseti hringir.) á íslenskri tungu. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Heyr, heyr.)