149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

þinglýsingalög o.fl.

68. mál
[11:03]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Með því að lögfesta þessi ágætu ákvæði erum við að feta okkur enn lengra inn á hinar óravíðu lendur hins rafræna og stafræna heims. Það gerir til okkar miklar kröfur en í því felast líka mörg tækifæri. Er ástæða í þessu sambandi til að hvetja ríkisstjórnina til að koma til framkvæmda enn frekar yfirlýstum markmiðum um að skilgreina og auglýsa störf án staðsetningar. Í því efni eru mörg tækifæri. Fækkað hefur störfum í hinu opinbera víða úti á landi og þarna er hægt að byggja upp þekkingu á skilgreindum svæðum.