149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[11:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta mál er eins og mörg mál sem fjalla um útlendingalög og tengd lög, það er bæði slæmt og gott í því. Ég mun greiða atkvæði um mismunandi ákvæði eftir atvikum og vísa til umsagna og nefndarálits meiri hlutans til skýringar á því í hvert sinn. Um mismunandi mál er að ræða hér sem ég tel nægar upplýsingar finnast um í umsögnum til að átta sig á hvaðan afstaðan kemur.

Ég vil líka árétta það, vegna þess að ég mun sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins sem og í nokkrum ákvæðum, að hjáseta þýðir hvorki þekkingarleysi né skoðanaleysi, það er flóknara atkvæði en svo. Ég vil nefna það vegna þess að stundum hefur það sjálfkrafa verið álitið vera þannig. Eins og ég segi inniheldur þetta mál bæði góða og slæma hluti og oft er ekki hægt að greiða atkvæði með eða á móti.