149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[11:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Með þessu frumvarpi er lagt til að horfið verði varanlega frá því að uppreist æru verði veitt með stjórnvaldsákvörðun og jafnframt að horfið verði frá því að gert sé að skilyrði fyrir starf eða embætti að viðkomandi hafi óflekkað mannorð eða hafi ekki gerst sekur um refsivert athæfi sem telja megi svívirðilegt að almenningsáliti. Ég tel þetta gríðarlega gott og mikilvægt mál. Við í Vinstri grænum munum greiða atkvæði með því.

Mig langar þó að nefna að þetta frumvarp er afmarkað við það að afnema uppreist æru úr lögum og skilyrði um óflekkað mannorð. En við í allsherjar- og menntamálanefnd teljum hins vegar fulla ástæðu til að beina því til ráðuneytisins að halda áfram að endurskoða hæfisskilyrði ýmissa starfsstétta sem heyra undir málasvið þeirra og skoða málin í stærra samhengi í framhaldinu.

En frumvarpið sem hér um ræðir er gott og gilt og það styð ég.