149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

landgræðsla.

232. mál
[11:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það eru sannarlega tímamót þegar Alþingi tekur sig til og breytir lögum sem eru orðin 50 ára gömul, ég tala nú ekki um þegar um er að ræða svo mikilvægan málaflokk sem raun ber vitni. Við þekkjum öll þá þróun sem hefur orðið í þessum málum frá því að land byggðist þar sem við höfum háð á seinni árum mikla og erfiða baráttu við að endurheimta land, stoppa fok og koma á landnýtingu á svæðum sem hafa blásið upp með þeim afleiðingum að þau bæði detta úr nýtingu með tilheyrandi áhrifum á nágrenni sitt og í mörgum tilfellum á búsetu fólks.

Þetta eru vissulega tímamót sem styrkja umhverfi þessarar mikilvægu stofnunar og ramma inn mikilvægt hlutverk hennar. Við höfum náð miklum árangri á undanförnum árum í að vinna gegn eyðingu lands og ná landi aftur í ræktun og nýtanlegt ástand. En við getum gert betur og það er vissulega áhersluatriði í samstarfi þeirra ríkisstjórnarflokka sem nú eru við völd að gera enn betur þegar kemur að landgræðslumálum og skógræktarmálum. Þetta teljum við vera skyldu okkar í að ná árangri, færa framtíðarkynslóðum landið að þessu leyti í betra ástandi en þróunin hefur verið í gegnum aldirnar. Því er í raun táknrænt að við skulum stíga þetta skref núna.

Það er mjög mikilvægt í þessu samhengi að gleyma því ekki að minnast á þá sem hafa verið helstu samstarfsaðilar Landgræðslunnar og í mörgum tilfellum Skógræktarinnar þegar kemur að því að græða landið, félagasamtök og sveitarfélög spila þar stórt hlutverk. Komið er inn á það í því frumvarpi sem við erum að afgreiða að ramma svolítið inn það samstarf. Á síðustu árum og áratugum hefur þróast mikið og öflugt samstarf á milli Landgræðslunnar og bænda í landinu. Þarna fara auðvitað saman ekki bara áhugi á því að græða landið og koma því í nýtanlegt horf heldur einnig gríðarlega miklir hagsmunir fyrir landeigendur sem í flestum tilfellum eru bændur. Þetta verkefni hefur gjarnan gengið undir heitinu Bændur græða landið. Í því tilfelli kemur Landgræðslan að því máli að útvega fræ, áburð og slíkt, bændur leggja til land og alla vinnu, allan sinn tækjakost. Það er ekki síst í kringum þau verkefni þar sem árangurinn er mjög mælanlegur og augljós um allt land sem hefur orðið til þess að ákveðin stakkaskipti hafa orðið í málaflokknum. Þessu ber að fagna og um leið að hvetja til aukins samstarfs á þeim vettvangi.

Bændur eru svo sem vanir því að reikna ekki hátt tímakaup fyrir vinnu sína, sjálfur var ég í þeirri stöðu fyrir einhverjum árum, og leggja oft á sig fórnfúsa vinnu einmitt í þágu jarða sinna og þess lands sem þeir nýta til upprekstrar. Þeir hafa sýnt það í störfum sínum og áhuga á þessum málefnum að þeim er treystandi. Hagsmunirnir eru augljósir og ástæða er til að hvetja enn frekar til nánara samstarfs og eflingar á þessum vettvangi. Með slíkri stefnu er örugglega hægt að ná mun víðtækari og meiri árangri á skemmri tíma.

Hið sama á við um ýmis þau áhugamannafélög sem tilbúin eru að veita lið í málefnum sem þessum. Þar er fólk sem af brennandi áhuga er tilbúið að leggja á sig mikið og fórnfúst starf í þágu lands og þjóðar. Einnig er ástæða til að hvetja til þess að horft verði til þessa af því að oft er hægt að lyfta grettistaki með því að rétta litla hjálparhönd af hálfu hins opinbera. Sjálfboðaliðastarf er einhvern veginn samofið okkar fámenna samfélagi í þessu stóra landi. Það sjáum við á mörgum sviðum. Þarna er ástæða til að minnast á þetta, hvetja til að efla slíkt samstarf og um leið að þakka það mikla starf og fórnfúsa sem unnið hefur verið.

Við erum einnig með til umfjöllunar í nefndinni nýtt frumvarp um Skógræktina og verður ánægjulegt að loknu jólaleyfi að taka til höndum við að fara yfir það mál. Það er gríðarlega mikilvægt mál sem er svolítið af sama meiði og það sem við fjöllum um hér. Aftur gilda sömu rökin.

Ég vil nota þetta tækifæri og minna á það sem var afgreitt í þinginu fyrir nokkrum árum og ég hefði gjarnan viljað sjá ganga lengra og hef svo sem fulla trú á að slík verði framtíðin, að hér erum við að fjalla um þessi tvö mál í nefndinni, af þessum sama meiði, en þetta er í tveimur stofnunum. Samþykkt var þingsályktunartillaga á þingi fyrir nokkrum árum um eflingu skógræktar sem atvinnugreinar. Þar var lagt til og samþykkt af stórum hópi þingmanna að sameina þessar tvær stofnanir. Ég vil nota tækifærið og nefna að ég tel að slíkt skref sé raunhæft, tímabært og geti orðið málaflokkunum til framdráttar. Það er augljóslega mikið samstarf sem á sér stað á milli þessara stofnana og ég held að það sé í góðum farvegi og því ber að fagna. En ég held að ef við hefðum þetta á einni hendi væri yfirsýnin skýrari og árangurinn jafnvel betri. Ég hvet alla hlutaðeigandi, hvort sem það er ráðuneytið sem um þessi mál fjallar eða stofnanirnar sjálfar, til að efla samstarf sitt, en ekki síst að skoða hvort ekki er ástæða til að sameina starfskrafta á þessum vettvangi.

Ég vil að lokum, virðulegur forseti, þakka fyrir gott samstarf í nefndinni um málið. Við höfðum skamman tíma núna til að klára þetta. Með samstilltu átaki tókst það. Ég þakka framsögumanni málsins, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir að halda vel utan um þetta og klára með okkur á síðustu metrunum.