149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

atvinnustefna á opinberum ferðamannastöðum.

[13:33]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Náttúran er okkar stærsta auðlind. Að þeirri auðlind sem öðrum þarf að hlúa. Náttúruauðlindir okkar eru margar og fjölbreyttar. Mikill meiri hluti ferðamanna sem sækja Ísland heim kemur til að skoða íslenska náttúru. Það er skipulagið í kringum þá náttúruauðlind sem við ætlum að ræða hér í dag, þá auðlind sem er grunnurinn að stærsta útflutningsatvinnuvegi okkar, ferðaþjónustunni. Því er mikilvægt að ræða hvaða skipulag við notum og hvaða stjórntæki við komum okkur upp til að vernda og varðveita þessa mikilvægu auðlind. Stóra spurningin er einnig hvernig við nýtum þessa auðlind til að auka lífsgæði hér á landi sem og til þess að tryggja góða upplifun innlendra sem erlendra ferðamanna, tryggja uppbyggingu innviða og eflingu byggða og skapa aukin verðmæti til að standa undir öflugu velferðarsamfélagi.

Þær náttúruperlur sem draga til sín gesti eru fjölmargar, fjölbreyttar og dreifðar um allt land. Eignarhald þess lands sem þær eru staðsettar á er margs konar en þeir staðir sem eru í opinberri eigu lúta misjöfnum lögum og reglum. Þar má nefna þjóðgarða, friðlýst svæði, þjóðlendur, bújarðir eða almenna landareign sem getur verið í sameign með fjölda annarra aðila. Auk þessa fjölbreytta fyrirkomulags á eignarhaldi ríkisins eru aðstæður misjafnar á hverjum stað fyrir sig, ólíkt er hvaða innviðir eru til staðar, hver þolmörk staðarins eru og hversu mikil takmörk eru sett fyrir náttúruskoðun á hverjum stað.

Við þurfum að móta okkur stefnu og gera áætlanir um hvernig við ætlum að mæta þeirri áskorun að vernda náttúru okkar en um leið að nýta hana landsmönnum til heilla.

Það sem mig langaði að ræða hér í dag er hvernig við náum markmiðum okkar með skýru og gagnsæju skipulagi sem þjónar sem best gestum okkar, byggðum landsins, atvinnulífinu og samfélaginu öllu við verndun og nýtingu á náttúruauðlindinni. Þar þarf að spyrja hvort við komum á samræmdu skipulagi fyrir ólík svæði eða hvort skipulagið og kerfin þurfi að vera nokkur, hvort allt sé gert í samvinnu allra þeirra ráðuneyta sem koma að þessu, stofnananna og rekstraraðila, eða hvort hver hugsi um það sem undir hann heyrir.

Við þurfum að spyrja okkur: Hvernig viljum við standa að stýringu og útdeilingu takmarkaðra gæða? Hvernig verður best stuðlað að sjálfbærri nýtingu og sjálfbærum rekstri og uppbyggingu innviða á þessum stöðum? Hvaða gæða- og öryggiskröfur þarf ferðaþjónustan eða sú atvinnustarfsemi sem heimsækir eða starfar í og við opinbera ferðamannastaði að uppfylla? Verða gerðar kröfur um starfsleyfi o.s.frv.?

Við erum vissulega ekki á byrjunarreit. Á flestum þessara áskorana hefur verið tekið í þjóðgörðunum okkar þrem, Þingvallaþjóðgarði, Vatnajökulsþjóðgarði og Snæfellsjökulsþjóðgarði. Forsvarsmenn þjóðgarðanna vinna nú náið saman samhliða því að Vatnajökulsþjóðgarður vinnur sína atvinnustefnu sem á að verða tilbúin strax í vor. Atvinnustefna er mikilvæg fyrir svo fjölfarna ferðamannastaði eins og eru innan þjóðgarðanna þar sem koma ein til tæplega tvær milljónir ferðamanna á hvern af fjölsóttustu stöðunum innan þessara þjóðgarða. Það gefur augaleið að slík aðsókn kallar á svör við spurningum um gjaldtöku, starfsleyfi fyrirtækja, gæði þeirrar þjónustu sem veitt er, umhverfismál, aðgangsstýringu, innviðauppbyggingu og útdeilingu takmarkaðra gæða, t.d. með útboðum.

Hér hef ég mest fjallað um náttúruna og landsvæði. Þó má ekki gleyma öllum þeim menningararfi, sögu og menningarminjum sem eru á þessum stöðum einnig og mikilvægi þessara staða í hverju samfélagi fyrir sig. Því er mikilvægt að samstarf og samráð sé mikið á milli allra hagaðila þegar um þessi mál er fjallað.

Að lokum vil ég þó nefna að við skulum ekki ætla okkur um of við að finna eina ríkislausn við öllum áskorunum fyrir alla staði í einu og að samstarfið og samráðið verði svo mikið að hvorki verður hægt að móta eina einustu stefnu né taka nokkra ákvörðun. Eitt er þó ljóst, það eru ekkert nema tækifæri fyrir framan okkur.