149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

atvinnustefna á opinberum ferðamannastöðum.

[13:45]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þetta er mikilvæg umræða og ber að þakka fyrir hana. Við ræðum hér tiltekna þætti ferðaþjónustunnar, þ.e. atvinnustefnu, og reyndar fleira, og það er ljóst að grunnur stefnumótunar er sjálfbærni. Greinin leitar í þá átt núna en ég lít svo á að ferðaþjónustan sé ekki enn sjálfbær. Það varðar einkum umhverfis- og náttúruþáttinn og eins þann samfélagslega því að ýmislegt misgengi er þar í gangi. Við þurfum að horfast í augu við þá stöðu. Nátengt sjálfbærninni eru auðvitað þolmörkin sem hér hefur borið á góma. Við þurfum að greina þolmörkin fyrir staði, fyrir svæði, og nú er fjöldaálag á náttúrufarsleg gæði. Það er of mikið fjöldaálag. Hið sama gildir um samfélög sums staðar en annars staðar ekki.

Herra forseti. Það er kominn tími til að hyggja að þolmörkum landsins og samfélagsins í heild og þar með aðgangsstýringu. Það er ekki frí stökkbraut upp í 5–10 milljónir gesta á ári. Markaðurinn má ekki ráða þessu eingöngu, það þarf að taka miklu meira tillit til samfélagsviðmiða og jafnvægis milli náttúrunytja, samfélagsnytja og verndar. Það er stóra verkefnið því að við viljum fjölbreytta atvinnustarfsemi í þessu landi. Ekki er rúm fyrir loftkastala eða teygjuhagfræði, samanber vegferð WOW, og atvinnustefna á að einkennast af eftirfarandi: sjálfbærni og öllum þremur þáttum hennar, faglegri þolmarkagreiningu og nægu öryggi gesta og starfsmanna, opnu ferli við útboð sem eru fyrir leyfi til atvinnustarfsemi. Útborðin eiga að vera byggð á jafnræði og loks á að gæta að hóflegu eftirliti með starfsemi í ljósi samkomulaga.