149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

atvinnustefna á opinberum ferðamannastöðum.

[13:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir gott framtak. Þessi vísa er aldrei of oft kveðin og verður væntanlega svo um ókominn tíma. Mig langar til að byrja á því sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason og hæstv. ráðherra ræddu bæði, að í þessu stóra úrlausnarefni sem við höfum er ekki til nein ein ríkislausn. Ég er algjörlega sammála því. Hins vegar verðum við þá að tryggja að þeir aðilar sem við teljum að séu vel í stakk búnir til að koma að málum hafi hvata til þess. Þar er ég t.d. að tala um sveitarfélögin. Eins og staðan er í dag hafa þau, mörg hver, ekkert endilega hag af því að efla ferðaþjónustu á sínu landi. Þau hafa engan sérstakan hag af því að halda henni úti en það vantar þennan fjárhagslega hvata og þá er ég t.d. að tala um að það sé ákveðið hvaða hlut þau hafa af þeim fjármunum og þeim tekjum sem ferðaþjónustan skilur eftir á þeirra svæði. Það skiptir máli og við megum alls ekki búa svo um hnútana til langs tíma að á þeim liggi ábyrgðin til uppbyggingar og til verndar og til að miðla þekkingu en fjárhagslegur ávinningur fari síðan eitthvað annað. Það gefur eiginlega augaleið að engin sjálfbærni er fólgin í því.

Ég held að við séum öll sammála um að það þarf einhvers konar stýringu, það liggur líka í hlutarins eðli. Við erum vissulega orðin svolítið sein. Við fórum frá því að verða væntanlegt ferðaþjónustuland sem þyrfti að vanda sig yfir í það að verða það allt í einu og þá sátum við svolítið eftir. Við vildum vanda til verka. Það er eitt sem mig langar til að vara við hérna og það er að við verðum svo sein, og mögulega erum við orðin of sein í það, að kominn verði hefðarréttur á nýtingu á náttúrunni okkar. Það eru vissulega komnir ákveðnir staðir í okkar fallega landi þar sem ákveðnir aðilar, duglegir og framtakssamir, hafa haslað sér völl, búnir að byggja þar upp. Þá er spurningin: Eiga þeir þann rétt núna? Er það bara þannig? Þetta er vissulega (Forseti hringir.) ansi öflugt viðfangsefni og ég er búin með 10% af því sem mig langaði að tala um. En það koma tímar og það koma ráð og ég hlakka til að heyra meiri umræðu hér.