149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

atvinnustefna á opinberum ferðamannastöðum.

[14:03]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að hefja þessa umræðu og ég heyri ekki betur en að hér sé samhljómur í málflutningi hv. þingmanna og því ber að fagna. Dreifing ferðamanna um Ísland hefur kannski ekki verið nógu góð, þ.e. ekki nógu skipulögð. Mestur hefur ágangurinn verið á suðvesturhorninu, sem er næst Keflavíkurflugvelli, en það er einmitt hluti af vinnu umhverfis- og samgöngunefndar nú að ráðast í uppbyggingu samgangna, bæði vegakerfisins og uppbyggingu innanlandsflugs og flugvalla á landsbyggðinni, sem yrði þá líka fyrir millilandaflug. Það yrði liður í því að jafna þessa dreifingu.

Fjölgun ferðamanna á fjölsóttum stöðum og náttúruperlum er náttúrlega fagnaðarefni fyrir hagkerfið sem slíkt en í því samhengi þarf að líta til þess að skipuleggja þarf slíkt vel og taka tillit til náttúrunnar. Til þess að slíkt sé hægt að skipuleggja þá held ég að gjaldtaka og aðgangsstýring sé eitthvað sem við verðum að gera til þess að byggja upp innviðina. Erlendis er það alþekkt að taka gjald fyrir aðgengi að náttúru og einkum og sér í lagi þar sem náttúra er viðkvæm. Þó að náttúran á Hawaii t.d. sé kannski ólík okkar þá er hún viðkvæm og þar er tekið gjald fyrir aðgengi að náttúrunni, til að skoða hana. Þar gerir enginn í raun og veru athugasemd við það. Þetta er einfaldlega gjald eða framlag einstaklingsins til þess að viðhalda náttúrunni.

Náttúran sem erlendir ferðamenn og landsmenn sækja svo mjög í er auðlind sem er takmörkuð og því þarf að umgangast hana á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Við eigum að gera (Forseti hringir.) kröfur á okkur sjálf, kröfur á ríkið og aðila sem reka (Forseti hringir.) ferðamannastaði til að nýtingin geti verið sjálfbær, án þess þó (Forseti hringir.) að hefta einstaklinga eða lögaðila sem eru framtakssamir heldur til að leiðbeina þeim til góðra verka og samfélaginu öllu til góðs.