149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

atvinnustefna á opinberum ferðamannastöðum.

[14:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni þessa sérstöku umræðu um atvinnustefnu á opinberum ferðamannastöðum. Eins vil ég þakka hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og ráðherra ferðamála, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, hennar upplýsingar og innlegg í umræðuna.

Ferðaþjónustan hefur lengi skipt máli í gjaldeyrissköpun en hefur nú á tiltölulega skömmum tíma, örfáum árum, orðið ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, hvort heldur sem horft er á atvinnu- og verðmætasköpun landsframleiðslu eða öflun gjaldeyristekna. Í þessari öru fjölgun ferðamanna undanfarin ár höfum við samhliða uppbyggingu ferðamannastaða verið að fást við þetta verkefni, hvernig við öflum tekna, byggjum upp rekstur og verjum um leið þau gæði sem sóst er eftir. Við viljum gera það með sjálfbærum hætti. Til þess þurfum við einhvers konar mælikvarða á það hvar mörkin liggja, einhvers konar þolmarkagreiningu. Auðvitað er það misjafnt eftir því um hvers konar gæði og þjónustu við erum að ræða eða veita hver möguleikinn á gjaldtöku er. Eins og kemur glögglega fram í skýrslu hæstv. ráðherra um þolmörk í ferðamennsku eru áhrifin mismunandi eftir landshlutum og dreifingu ferðamanna um landið.

Lengi vel var viðfangsefni okkar að teygja eftirspurnina lengur yfir árið, út fyrir hefðbundinn ferðamannatíma. Verkefnið nú er að byggja upp þjónustu þannig að ferðamenn fari víðar en rétt hér á Suðurlandi og í kringum höfuðborgarsvæðið og ná þannig fram aukinni skilvirkni í uppbyggingu með bættu skipulagi og stýringu á áfangastaði og inn á þá allra fjölsetnustu.

Áhrifin af ferðaþjónustu eru efnahagslega mjög jákvæð fyrir þjóðarbúið en áhrifin eru fjölþættari og án markvissrar stjórnunar geta þau verið neikvæð. Þau geta verið neikvæð umhverfislega, menningarlega og félagslega. Það hefur skort rannsóknir en það stendur til bóta með mótun stefnu og auknum rannsóknum og er það vel eins og þessi umræða hefur sannarlega dregið fram.