149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

atvinnustefna á opinberum ferðamannastöðum.

[14:13]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir málefnalega og góða umræðu um þetta mikilvæga málefni. Þessari umræðu var ekki síst ætlað að fá hér fram sjónarmið þingheims og frá mismunandi flokkum og sjá hvaða sýn þingið hefur í þessari vinnu, sem vissulega er komin langt og er í góðum farvegi eins og hv. þm. Smári McCarthy kom inn á og fleiri. Það kom margt áhugavert og margar góðar brýningar fram í umræðunni. Eitt sem ég vil taka heils hugar undir er að það er mjög mikilvægt að í þessum málum sé virkjaður allur sá hvati sem hægt er, hvati heimamanna, hvati landeiganda sem þekkja sitt svæði, þekkja söguna hvað best og vita hvað er best fyrir sitt svæði og hvað virkar og hvað ekki, að þeir sem og frjáls félagasamtök, útivistarsamtök, náttúruverndarsamtök og aðrir hafi einhvern hvata til þess að auka fræðslu og þekkingu á stöðunum, auka aðgengið, styrkja þá innviði sem þarf til að gera slíkt.

Þá vil ég líka nefna eitt gott dæmi um það sem hefur tekist vel hjá okkur, það er á Þingvöllum, sem er náttúrlega einn stærsti ferðamannastaður Íslands, fær yfir 1,5 milljón ferðamanna á hverju ári. Þar hefur verið farið í aðgangsstýringar. Þar hefur verið farið í öflun sértekna með bílastæðagjöldum, salernisgjöldum og fleiru. Þar hefur tekist að byggja upp góða göngustíga, vernda svæðið, auka fræðslu og þekkingu til ferðamanna, til landsmanna, til skólahópa og annarra. Þegar svona ferðamannastaður hefur tækifæri til að bæta aðgengi eykst líka aðgengi hreyfihamlaðra og allra um leið. Það er bara gott dæmi um það að ef tekið er á málum, gerð stefna og þorað að fara í aðgangsstýringar, gjaldtöku og annað slíkt, þá er hægt að gera góða hluti og koma inn á þetta allt saman.

Ég þakka bara fyrir (Forseti hringir.) góða umræðu og áfram ætlum við að nýta tækifærin.