149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

atvinnustefna á opinberum ferðamannastöðum.

[14:15]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Mig langar að þakka fyrir þessa umræðu. Það hefur verið ánægjulegt að heyra þennan samhljóm á milli flokka, bæði um það sem við erum að gera og á hvaða leið við erum. Það er auðvitað mikið rætt um sjálfbærni og að nýting takmarkaðra auðlinda sé sömuleiðis sjálfbær. Þetta er í grunninn allt það sem við gerum, við erum að reyna að byggja á því. Þetta er rauði þráðurinn í gegnum öll okkar verkefni og alla okkar nálgun.

Hér er mikil gerjun. Mér fannst gott það sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom inn á varðandi þjóðgarðana. Þeir hafa að ákveðnu leyti verið leiðandi. Mögulega eru ýmsar ástæður fyrir því og e.t.v. aðrir betri en ég að segja frá því. En þjóðgarðarnir hafa t.d. haft þessi verkfæri hjá sér í töluverðan tíma og eru núna að byrja að beita þeim með skynsamlegum hætti. Þetta tekur allt tíma og við þurfum að huga enn frekar að því hvaða fleiri verkfæri þarf vegna þess að þau eru mjög misjöfn og þeim er beitt með mjög mismunandi hætti á mismunandi stöðum.

Aðeins út af sérleyfishugmyndum. Nú er nefnd að störfum, hún á eftir að ljúka stöðuskýrslu sinni, en almennt er æskilegt að þeir ríkisaðilar sem vinna að gerð atvinnustefnu á mörgum mismunandi stöðum, samræmi við þá vinnu sem kostur er þannig að ramminn utan um vinnuna sé samræmdur. Þetta eru oft sömu spurningarnar: Er þörf á fjöldatakmörkunum eða beinum stýringum? Þá er æskilegt að svipuð sjónarmið séu lögð til grundvallar. Er þörf á takmörkun á fjölda aðila í atvinnustarfsemi? Hver eru þolmörk svæða hvers fyrir sig? Ef svæði hentar fyrir sérleyfi, hversu langa samninga á að gera?

Þá komum við inn á umræðu sem hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, nefndi áðan: Hvar standa þeir sem hafa verið að búa til verðmæti í langan tíma á einhverjum stöðum, og svo hinir sem vilja komast þar að? Það eru stórar spurningar sem við eigum eftir að ræða (Forseti hringir.) í þinginu.

En þetta var góður upptaktur að því sem koma skal.