149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

77. mál
[14:47]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ágætu þingmenn. Mig langar að kynna sérstaklega fyrir ykkur breytingartillögu sem minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur lagt fram í þessu máli. Um er að ræða örlitla breytingu á frumvarpinu þess efnis að samþykki meðlagsgreiðanda þurfi fyrir því að Innheimtustofnun sveitarfélaga geti kallað eftir upplýsingum frá Fangelsismálastofnun annars vegar og Félagsþjónustu sveitarfélaga hins vegar.

Við teljum að eins og frumvarpið er búið sé of víðtæk heimild sem Innheimtustofnun sveitarfélaga, sem hefur með innheimtu meðlags að gera, fær í frumvarpinu, að geta kallað eftir upplýsingum um alla meðlagsgreiðendur á Íslandi, algerlega óháð samþykki frá þessum tveimur stofnunum, þ.e. Fangelsismálastofnun og Félagsþjónustu sveitarfélaga. Þetta eru það viðkvæmar persónuupplýsingar að við teljum gríðarlega mikilvægt að meðlagsgreiðandinn sjálfur þurfi að veita samþykki fyrir því að slíkar upplýsingar séu veittar, enda á viðkomandi að fá að halda slíkum upplýsingum (Forseti hringir.) fyrir sig ef hann kýs svo.